26.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Sigurður Sigurðsson:

Mér þykir leitt, hvað nefndin í kláðamálinu hefir tekið illa í breytingartillögur mínar við frumvarpið. Þær miða þó að því að bæta frumvarpið og gera það aðgengilegra.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) vildi gera lítið úr kostnaðinum, er þessi ráðgerða útrýmingarböðun hefði í för með sér og taldi sanngjarnt, að hann kæmi sem mest niður á fjáreigendum.

Það hefir nú enga þýðingu að gera lítið úr þessum kostnaði. Við 2. umr. þessa máls tók eg það fram, að kostnaðurinn við tvær baðanir — baðlyfjakostnaðurinn og böðunarkostnaðurinn, eða sá hluti hans, sem fjáreigendur eiga að greiða — nemi að minsta kosti 100 þúsund kr. Og þessi kostnaður er lagður á alla fjáreigendur sem kvöð eða skattur. Auk þess hefir böðunin í för með sér mikinn annan kostnað, er kemur niður á fjáreigendum, svo sem öll vinna við böðunina og heyeyðsla um fram það, er ella ætti sér stað.

Í sambandi við þetta vil eg minna á það, að æskilegt væri, að böðunin yrði framkvæmd á þeim tíma, sem fé er alment á gjöf. Mætti því böðunin helzt ekki fara fram, fyr en um eða eftir miðjan vetur. Það gerir einmitt töluverðan mun, að baðað sé, þegar fé er við hús á annað borð og gefið, í stað þess að baða meðan hagar eru nógir og fénu er beitt. Þetta ætti landstjórnin og þeir, er ráða miklu um þetta mál, að athuga.

En jafnvel þó tekið sé tillit til þessa, sem nú var sagt, og reynt að draga úr kostnaðinum, þá verður þó aldrei komist hjá því að íþyngja fjáreigendum mjög mikið með þessari böðunarráðstöfun.

Því er haldið fram, að það borgi sig að baða, ullin verði þá meiri og betri. Mér dettur ekki í hug að neita því, þvert á móti. En það er ekki nauðsynlegt að viðhafa tvær baðanir, til þess eins að gera ullina betri. Og tilgangurinn með tveimur böðunum er heldur ekki aðallega sá, að bæta og auka ullina, heldur er meiningin sú, að gera á ný tilraun til þess að útrýma kláðanum. Þeir sem mest hafa beitt sér fyrir þessari útrýmingartilraun, halda því fram, að kláðanum megi útrýma á þennan hátt. Eg efa það. Jafnvel þótt eg viðurkenni fyllilega, að tvær baðanir séu að þessu leyti tryggari en ein böðun, þá held eg því samt fram, að þær séu ekki óyggjandi til algerðrar útrýmingar fjárkláðanum eða kláðamaurnum. Þegar á þetta er litið, virðist mér það hart aðgöngu að lögskipa tvær baðanir og skylda fjáreigendur til þess að borga allan eða því nær allan kostnaðinn, er þær hafa í för með sér.

Af þessum ástæðum, að hér er um þvingunarlög að ræða, og að engin óyggjandi vissa er fyrir því, að það takist að útrýma kláðanum, þá verð eg að halda því fast fram, að öll sanngirni og réttsýni mæli með því, að samþykkja breytingartillögur mínar. Það væri misráðið að fella þær og eg trúi því ekki fyr en eg tek á, að svo verði.

Stjórnarfrumvarpið gerði ekki beint ráð fyrir því, að baðlyfskostnaðurinn greiddist af fjáreigendum. Þar var einmitt gert ráð fyrir, að landssjóður borgaði baðlyfið.

Breytingartillögur mínar fara ekki fram á það, að baðlyfskostnaðurinn greiðist að öllu leyti úr landssjóði, heldur að eins að ? hlutum. Sjá því allir, að hér er ekki farið fram á neina ósanngirni.