22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

105. mál, íslenskur fáni

Framsm. (Skúli Thoroddsen):

Nefndin, sem skipuð var í þetta mál, hefir nú lokið störfum sínum og lagt fram nefndarálit og lagt það til, að frv. þetta verði samþykt.

Veruleg hreyfing komst ekki á þetta mál fyr en árið 1906, að málið var rætt á stúdentafundi hér í Reykjavík — ætla eg að því hafi verið hreyft í blaði mínu nokkru fyr. — Síðan hafa verið samþyktar víða um land óskir um fána, og eru þær samþyktir prentaðar aftan við nefndarálitið sem fylgiskjöl. Máli þessu hefir einnig verið hreyft í Ungmennafélögunum, en þeim hefir orðið það á, að vilja lögleiða staðarfána í stað þess að taka skrefið fult út og fá siglingafána.

Eftir að þessi hreyfing komst á málið, var farið að nota fánann — bláan með hvítum krossi — og er hann nú orðinn talsvert almennt notaður á landi og margir hafa mætur á honum, því óviðfeldnara er það, að skip sem sigla með fram ströndum landsins og til útlanda, noti ekki þennan fána, því það væri oss til sæmdar, að láta sjá að við séum sérstök þjóð, með fullum réttindum. Þess ber einnig að gæta, að ef hér í Reykjavík kemur góð höfn, þá er líklegt, að skipastóll vor aukist að mun og þá er full nauðsyn á því, að vera búinn að kippa þessu máli í lag.

Mál þetta hefir tvær hliðar, aðra, er veit að þjóðinni og hina út á við. Meðal þjóðarinnar vekur það sjálfstæði og þjóðarmetnað, sem hvetur til framfara og sjálfstæðis, uppörfar til vakningar og drengilegrar framkomu, einkum meðal hinnar uppvaxandi kynslóðar, og það er því heppilegt, að ungmennafélögin hafa tekið það upp á sína stefnuskrá. Út á við hefir það líka einkarmikla þýðingu, því ekkert er það, sem betur getur sýnt, að við séum sjálfstæð þjóð. Að vísu er mér það kunnugt úr millilandanefndinni, að Dönum er meinilla við þetta mál, og vilja að við höldum áfram að hafa danska fánann, en móti þessum lögum geta danskir stjórnmálamenn ekkert sagt, því það er greinilega tekið fram í stöðulögunum, að verzlun og siglingar séu okkar sérmál. Þá getum við ráðið því, hvaða fána við höfum á okkar skipum, alveg eins og við getum ráðið hvers konar stjórn við höfum á skipum vorum. Það þýðir því ekki fyrir þá að þrefa neitt um það. Einnig þarf Dönum að skiljast það, að hér er fyrst og fremst ekki farið fram á annað en það, sem þeim er óviðkomandi — en okkar þjóð vill fá framgengt — og hitt, að það er að auka en ekki minka álit Danakonungs, að hann ríkir yfir tveimur þjóðlöndum, sem hvort um sig hafi sérstakan fána.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni, en óska, að málið fái sem beztan byr; að eins skal eg geta þess, að eg lít svo á, að hér sé um mál að ræða, sem ekki snertir aðrar þjóðir, heldur tilkynni utanríkisráðherrann að eins, að íslenzk skip sigli undir þessum fána hér eftir.