22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

105. mál, íslenskur fáni

Ráðherrann (Kr. J.):

Eg vildi leyfa mér að segja nokkur orð um þetta mál. Vér verðum fyrst og fremst að gera oss það ljóst, hvort vér, ef frumv. þetta skyldi verða að lögum, þá munum fá framgengt þeim óskum og vonum, sem vér nú ætlumst til, það er að segja, hvort vér þá munum fá þennan fána viðurkendan. En á því hugsa eg að geti verið töluverð vandkvæði, og að þau vandkvæði muni stafa frá þeirri þjóð einni, er oss stendur næst, nfl. frá Dönum. Eg held því, að það væri réttara að leita fyrst fyrir sér um það, hvort nokkur tök séu á því fyrir oss að fá fánann viðurkendan, áður en vér semjum lögin; held annars að þetta mál geti komið bæði þingi og þjóð í athugaverðar ógöngur.

Framsögum. (Sk. Th.) talaði að vísu um, að þetta væri að eins verzlunarfáni, og að verzlun og siglingar væru okkar sérmál; en það hlýtur þó háttv. framsm. (Sk. Th.) að vera kunnugt, að Danir hafa aldrei viljað viðurkenna fánann sem sérmál okkar og þá finst mér ærið viðurhlutamikið að samþykkja þessi lög, vitandi það fyrir fram, að erfitt eða jafnvel ómögulegt verður að fá lögin staðfest. Fyrst verðum vér að fá það viðurkent, að hér sé um sérmál vort að ræða. En svo segir í frv., að fáni sá, sem notaður sé á stjórnvaldabyggingum hér, skuli vera klofinn að framan. Hér er vissulega eigi um verzlunarfána að ræða, heldur er hér gefin fyrirskipun um stjórnvaldafána og þó verzlun og siglingar séu viðurkent sérmál vort, þá leiðir vissulega ekki af því, að við getum haldið því örugglega fram, að stjórnvaldafáni sé sérmál. Óhultara væri, að leita fyrst fyrir sér um viðurkenningu þess.

Í sambandi við þetta skal eg benda á það, að með lögum um mælingar og skrásetning skipa, er það ákveðið, að á hverju skipi skuli standa stafirnir D. E. þ. e. dansk Ejendom. Eg vil ráðleggja hinni háttv. deild til að fá þessu breytt fyrst, áður en vér lögleiðum sérstakan fána. Skip sem auðkent er D. E. (?: dönsk eign) á að lögum að hafa danskan fána. Verði þessu breytt, auðkennið D. E. úr lögum numið, þá verða skipin, sem eru eign vor, fyrst íslenzk eign í lagalegum skilningi.

Eg skal fyllilega viðurkenna, að við verðum að gera Dönum ljósan vilja vorn í þessu, sem öðru, en eg held að þetta sé ekki heppilegasta leiðin til þess.

Eg hefi sagt þessi fáu orð til þess, að benda þingmönnum á, að hætt er við, að við stofnum okkur í ógöngur, ef við hröpum að því að samþykkja frumv. þetta, áður en vér höfum leitað hófanna um viðurkenningu á sérstökum fána fyrir oss hjá öðrum þjóðum, sér í lagi hjá Dönum.