22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

105. mál, íslenskur fáni

Hannes Hafstein:

Eg er að öllu leyti sömu skoðunar, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.). Ef Ísland væri fullvalda ríki, þá væri enginn vandi að fá fánann viðurkendan, þá þyrftum vér ekki annars við en tilkynna öðrum ríkjum, að vér hefðum tekið hann upp. En því miður er ekki því að heilsa.

Háttv. frsm. (Sk. Th.) veit mjög vel, að Danir viðurkenna ekki fánamálið sem sérmál Íslands. Það er sérkredda hans, sem enginn lögfræðingur annar en hann hefir haldið fram, að byggja rétt vorn til sérstaks siglingaflaggs á stöðulögunum. Flaggið er ekki þáttur eða grein af siglingum og verzlun, heldur aðallega tákn ríkisvaldsins. Með því nú að málið er svona vaxið, að vér hvorki erum fullvalda ríki né heldur að Danir viðurkenna fánamálið sem sérmál, þá er bersýnilegt, að vér hér rekum oss á til allra hliða, og er nóg að benda á það eitt, að vér þyrftum ef til kæmi, að nota danska sendiherra til þess að gefa öðrum þjóðum tilkynning um fánann.

Annars finn eg knýjandi ástæða til þess að segja það hér upphátt, sem margur hugsar, að hér er um ekkert annað en pólitíska forsending að ræða, sem ætlast er til að verði núverandi ráðherra að fótakefli. Eg er sannfærður um, að þessu máli hefði aldrei verið hreyft, ef háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefði orðið meira en »tilvonandi«. Í sambandslaganefndinni kom öllum, að honum einum undanskildum, saman um, að fánamálið væri samningamál ásamt mörgum öðrum málum, og er því rangt að rífa það nú úr réttu samhengi og gera það að þrætumáli eitt út af fyrir sig.