25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

105. mál, íslenskur fáni

Hannes Hafstein:

Eg vil leyfa mér að benda á að þau ákvæði í íslenzkri löggjöf, sem viðurkenna hið danska flagg sem vort flagg, finnast ekki eingöngu í lögum, sem alþingi hefir samþykt, heldur einnig í tilskipunum frá einveldistímanum.

Eg get ekki viðurkent, að hinn háttv. framsögumaður hafi enn þá svarað þeirri spurningu, sem háttv. þm. Barð. (B. J.) bar upp við 1. umr.

Eg get ekki betur séð, en að líkindi séu til, að mikið vandhæfi verði á að fá þessi lög staðfest af konungi.

Hinn háttv. framsögumaður veit vel, að einmitt þetta mál var eitt hið viðkvæmasta ágreiningsefni í sambandslaganefndinni, en þó fór svo, að samkvæmt frumvarpi nefndarinnar gat Ísland á sínum tíma tekið upp sérstakt flagg. En nú var því frumvarpi hafnað, og verð eg því að telja með öllu vonlaust um, að Danir fáist nú til að viðurkenna sérstakan fánarétt oss til handa, er það mál þannig hefir verið rifið út úr réttu samhengi. Mér finst því nauðsynlegt að alþingi geri sér grein fyrir, hvað gera skal, ef þessu frumvarpi verður synjað staðfestingar, því að leiðinlegt verður að standa þá uppi eins og þvara.