25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

105. mál, íslenskur fáni

Bjarni Jónsson:

Skáldið lætur Sverri konung segja þessi orð í banalegunni:

Breidd sé Sigurflugu sængin,

svo til hinsta flugs ei vænginn

skorti gamlan Birkibein.

En hvað mun létta þeim flugið, sem engan eiga fánann?

Þessi fáni má vel verða oss að Sigurflugu, þótt svo illa takist til, að langt verði að bíða viðurkenningar. Og hann mun verða það með sanni, ef vér látum hann minna oss á, hvað gera þarf.

Sú er hin fyrsta grein þess, er gera þarf, að vér verðum allir sammála og hverfum allir að því ráði, að vilja hafa óskertan rétt vorn til fullveldis. En þann rétt eigum vér að vitnisburði sögunnar, vér eigum hann að lögum, og og — hann er eðlisréttur vor, sem aldrei verður af oss tekinn, hvað sem líður sögu, lögum og ofbeldi. Að innræta þetta hverju barni, svo að vilji þessi renni þjóðinni í merg og bein og verði eigi skilinn frá eðli voru fremur en skilja má »blóð við blóð, sem blæðir tveimur æðum saman«.

Sú er önnur grein þess, sem gera þarf, að vér vinnum allir að framkvæmd þessa vilja og látum enga flokkadrætti komast þar að. Þá mun skamt að bíða sigurs, því að Danir munu þá undan láta, er þeir sjá, að einn er hugur allra Íslendinga. Hirði eg eigi, þótt stjórnmálamenn þeirra og blöð hafi nú risið öndverð við kröfum vorum, því að til þess liggja auðsæ rök. Þeim hefir aldrei fyr verið hermt rétt um vilja Íslendinga og urðu þeir því ókvæða við í fyrstu og vildu eigi trúa, því er satt var sagt. Hafa þeir og misskilið minnihlutann hér, svo sem þeir ætti þar fylgismenn og hefði því von um, að geta neytt grundvallarstefnu þeirrar, sem felst í málshættinum divide et impera (þ. e. deildu og drotnaðu). En ef vér verðum samhuga og samtaka, þá mun sú von hverfa. Treysti eg því öruggur, að þá muni mannúð dönsku þjóðarinnar verða yfirsterkari þar í landi, og Danir hverfa frá því ráði að halda fyrir oss rétti vorum.

Sú er hin þriðja grein þess, er gera þarf, að velja eitthvert mál, sem vel er til þess fallið, að lýsa þessum hug inn á við og út á við. Vér flutningsmenn höfum valið til þess fánann, því það mál er bezt til fallið. Því að viðurkenning fullveldis er fengin, ef málið gengur fram og fáninn viðurkendur. En ef dráttur verður á því, þá er hann á meðan sýnilegt tákn vilja vors til fullveldis, sýnilegt tákn kröfu vorrar til fullveldis, og sýnilegt tákn vona vorra þeirra, er dýpst standa og ná lengra en flokkarígur og Sturlungaaldarbragur sá, er nú tvístrar kröftum vorum. Undir fánann söfnumst vér allir, því að enginn vill láta merki Íslands niður falla.

Mönnum hefir hér orðið tíðrætt um ýmsar mótbárur gegn þessu máli, og eru þær veigamestar, sem fram hafa komið frá háttv. þm. Vestm. (J. M ). Auðvitað er það rétt, að samtímis verðum vér að breyta lögum, hvernig skip vor skal lögskrá, en bæði má setja í þessi lög ákvæði um, að þau komi eigi fyr til framkvæmdar, en breytt sé öðrum lögum í samræmi við þau, og má einnig gera þessar lagabreytingar annaðhvort nú eða á aukaþinginu næsta ár. Háttv. þm. Barð. (B. J.) spurði, hversu með skyldi fara, ef konungur staðfesti lögin, en utanríkisráðgjafi Dana neitaði að gera fánann kunnan stjórnum annara þjóða. Þar til er fyrst og fremst því að svara, að slíkt kemur trauðla til mála, því að ólíklegt er, að konungur staðfesti lögin þvert ofan í mótmæli ráðgjafa sinna þar, og gengi vor vegna í berhögg við Dani. En kæmi slíkt fyrir, þá mundi svo komið málum, að ekki yrði hjá því komist að velja milli skilnaðar og kúgunar. Mundi þá og finnast ráð til að auglýsa fánann með öðrum hætti (Hannes Hafstein: Á viðskiftaráðunauturinn þá að gera það ?) Fyrri þm. Eyf. (H. H.) tekur fram í fyrir mér, og spyr, hvort viðskiftaráðunauturinn eigi að gera það. En ekki er víst að svo skjótt þurfi til að taka, að hann geti ekki verið kominn í meiri hluta áður og orðinn ráðherra aftur. Og þá er hann hefði fengið viðskiftaráðunaut skipaðan eftir sínu hjarta mundi honum ekki þykja neitt ógurlegt þótt viðskiftaráðunauturinn ætti að gera þetta.

Þetta frumv. eigum vér að samþykkja þing eftir þing, þar til er úr sker. En eigi þarf það þó að valda stjórnarskiftum, þótt eigi gangi fram málið fyrst um sinn, og má þó ráðherra vor einkis láta ófreistað annars, til þess að koma því fram. En er tími og þrautseigja hafa rutt kröfum vorum til rúms í hugum annara þjóða, þá mun þess verða kostur að herða á hurðir Flosa. Mega menn af þessum orðum marka, að mál þetta er eigi ætlað til þess, að vera gildra fyrir stjórn þá, er nú situr að völdum.

Ekki er það heldur til þess ætlað, að vera »títuprjónsstingur til Dana« svo sem sagt hefir verið um það og skyld mál. En sú meðferð málsins, sem eg hefi áður talað um, er nauðsynlegur vegur til þess að kenna þeim, að kröfurnar um að fullnægt sé fullveldisrétti vorum, séu runnar oss í merg og bein, og að þeim muni aldrei linna fyr en þeim er fullnægt Hún er nauðsynlegur vegur til að kenna þeim að telja það eigi móðgun við sig, þótt vér höfum djörfung til að heimta rétt vorn, heldur sé hitt móðgun við oss, ef þeir firtast af því. Því að sú reiði Dana, eða vina þeirra hér, hlýtur að vera sprottin af því, að þeir telja oss réttlausa.

En ef þjóð vor legst svo lágt, að verða þeim sammála um að telja sig réttlausa, þá mun þess skamt að bíða, að hún hverfi úr tölu þjóðanna.