29.04.1911
Sameinað þing: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Björn Þorláksson:

Eg finn að tillaga mín finnur ekki náð fyrir augum háttv. framsögumanna deildanna. Þeir finna henni ekkert til foráttu, en telja upp kosti þess, að hafa minst 8 manns í félagi. En það, að 8 menn minst þurfi í slíkt félag, það tel eg vera ókost, eg tók það fram áðan og skal leyfa mér að taka það upp aftur, af því mér heyrðist háttv. 6. kgkj. segja að þar sem væru 8—9 búendur í hreppi, þá væri það af áhugaleysi, ef þeir ekki gætu komið sér saman um að stofna félag. Það er satt, en það er áhugaleysi, sem gengur fyrst og fremst út yfir þá, sem hafa áhuga á jarðabótum. 5—6 menn geta unnið dagsverk svo hundruðum skifti, en þeir fá engan styrk, af því að þeir eru ekki nógu margir til að mynda félag. Það hefir verið sagt, að þeir gætu gengið í félag með mönnum úr næstu sveit, en á því eru ýmsir annmarkar, eins og eg sagði áðan, og þá oftast nær fjárhagslegir. Það er oft svo, að búnaðarfél. eins hrepps setur það í sín lög, að styrknum skuli úthluta jafnt milli þeirra sem í félaginu eru, en sumstaðar er aftur ákveðið að viss hluti styrksins, t. d. ? eða ¼ skuli leggjast í félagssjóð. Ef nú tvö nágrannafélög eru sitt með hvoru fyrirkomulaginu, þá sjá allir að ekki er gott að koma þeim saman. Menn vilja ógjarnan ganga í félag í næsta hreppi, þegar þeir vita, að nokkur hluti styrksins gengur í sjóð, sem að eins er til góðs þeim hreppnum. Þar að auki er erfitt að koma fundum saman í sveitum, þar sem há fjöll og illfærar heiðar eru á milli. Mér finst það hin mesta ósanngirni að hafa töluna 8, og eg trúi því ekki fyr en eg tek á því, að háttv. þingm. greiði atkvæði á móti þessari tillögu minni.