24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Enda þótt eg geti ekki verið með frv. að öllu leyti, eins og það er úr garði gert frá háttv. Ed., þá álít eg málið of merkilegt til þess, að fella það nú þegar frá 2. umr. án þess að setja nefnd í það. Það var nýlega til umræðu hér í deildinni annað mál, sem var talsvert viðsjárvert fyrir framkvæmd bannlaganna, það var frv. sem eg leyfði mér að kalla frv. til laga um eflingu brennivínsdrykkju í landinu í 3 ár. Þótt eg væri algerlega mótfallinn því máli, þá var eg því þó hlyntur, að það væri sett í nefnd. Eg vildi að þessu máli yrði vísað til sömu nefndar. Bæði frv. hafa sama tilgang, að vinna að því að meira vín verði flutt til landsins, en þetta frv. nær tilganginum betur og er óskaðlegra fyrir bannlögin.

Eg skal ekki lengja umræður mikið um málið að sinni, en vil að eins leyfa mér að mótmæla því, að þetta frv. sé nokkuð banatilræði við bannlögin. Eg vil því eins og eg tók fram, leyfa mér að stinga upp á, að máli þessu sé vísað til nefndarinnar, sem kosin var í frv. um tollgreiðslufrestinn.