24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Björn Þorláksson:

Eg vildi fyrst leyfa mér að minnast á, hvers vegna frumvarp þetta er komið fram. Það er látið svo að það vanti fé í landssjóðinn því er slegið fyrir og því sé hér ráð fundið til að bæta úr þeim vandræðum. Setjum þá svo, að landssjóð vantaði fé og því yrði að grípa til þeirra ráða, að fresta aðflutningsbanni á áfengi, þá vil eg spyrja, hvað þetta frumvarp mundi gefa mikið fram yfir áætlaðan toll 1913 og 1914. Eg hygg að þessi frestun, er frumvarpið fer fram á, muni ekki gefa mikið yfir 100 þús. kr. tekjur. En ef svo er, er það þá gild ástæða til þess að grípa til þeirra örþrifráða að fresta bannlögunum? 100 þús. kr. er ekki mikið fé fyrir landssjóð og því hægt að útvega honum þessa upphæð með mörgu öðru móti. Þingið hefir til meðferðar frumvarp um litla hækkun á sykur- og kaffitollinum. Ef frumvarpið næði fram að ganga, sem eg vona, mundi það auka tekjur landssjóðs um 60 þús. kr. Sömuleiðis hefir nú legið fyrir þinginu frumvarp um farmgjald, sem mundi, ef það yrði að lögum auka tekjurnar um 360 þús. kr. og þá eru enn 3 tollaukafrumvörp, upphaflega frá stjórninni, sem munn gefa 70 þús. kr. tekjuauka um fjárhagstímabilið. Þetta yrði til samans hátt á 500. þús. kr. og hver sem tekjuhallinn yrði, þá mundi fé það, sem frestunin hefði í för með sér, ekki bæta hann. Hver er þá þörf á þessari frestun, þegar hún gefur ekki nema tiltölulega lítinn tekjuauka, og auk þess mætti fá svona lítinn tekjuauka á margan annan hátt? Hvaða ástæða er þá til þess, að reyna að fresta bannlögunum?

Þessu er fljótsvarað. Ástæðan er engin. Eg get ekki hugsað mér nein skynsamleg og um leið sönn og rétt svör frá þeim hv. þm., sem berjast fyrir frestuninni. En ef þessir háttv. þm. vildu svara rétt og satt, ættu þeir að svara einhvern veginn á þessa leið: »Við viljum ekki hafa neinar tekjur í landssjóð, það sýndum við á þinginu 1909, þegar við greiddum atkvæði gegn farmgjaldsfrumvarpinu af þeirri ástæðu, að jafnt farmgjald væri sett á hver 100 pund, 25 a., án tillits til verðmætis. Og þetta sýnum við enn; nú höfum við greitt atkvæði gegn öðru farmgjaldsfrumvarpi, og fundið því það mest til foráttu, að það legði mishátt gjald á hver 100 pund. Tekjuhallinn má verða svo mikill sem vera vill, við erum menn til að laga það á sínum tíma. En við hreyfum ekki legg né lið, réttum jafnvel ekki út litla fingurinn til að bæta fjárhag landsins, fyr en þjóðin hefir fengið okkur stjórntaumana og völdin eru komin alveg í okkar hendur«.

Eg hygg, að þetta gefi rétta mynd af þeim mönnum, sem hafa svo fögur orð um heill þjóðarinnar, en sýna alt annað í verkinu.

Á síðasta þingi mátti heyra raddir um, að ef bannlögin yrðu samþykt og kæmust í framkvæmd, mundi það setja skrælingjastimpil á þjóðina í augum útlendinga. Þessu var spáð. En hvernig rættist þessi spádómur? Þegar bannlögin komu út og náðu staðfestingu konungs, vakti það mikla eftirtekt í umheiminum meðal bindindisvina og bannlagasinnaðra manna, bæði víðsvegar á Norðurlöndum, í Englandi og í Vesturheimi, eða meðal þeirra þjóða, er fremstar standa í siðmenningu. Það spor, sem Íslendingar stigu með bannlögunum, var talið þeim til mikils sóma. Jafnvel konungur vor fékk hamingju- og heillaóskir langt að, fyrir það að hafa fyrstur allra þjóðhöfðingja skrifað undir aðflutningsbannslög. Og því fór svo fjærri, að nokkurt orð heyrðist út af bannlögunum erlendis um það, að hér hlyti að búa skrælingjaþjóð, að tilorðning bannlaganna var talinn ótvíræður vottur um, að við værum siðuð og mentuð þjóð.

Spádómarnir áðurnefndu reyndust þá markleysa. En nú er gerð tilraun til þess að setja á okkur skrælingjastimpil, mark hringlandaskapar, eins og við vitum ekki, hvað sé okkur til gagns og ógagns, sæmdar eða vansæmdar. Það er nú verið að gera tilraun til þess að við þingmennirnir, sem samþyktum þessi lög í hitt eð fyrra, ónýtum þau nú, að við etum ofan í okkur það sem við gerðum þá, að við berum út á hjarnið okkar andlega fóstur, okkar 2 ára gamla barn. Það er núna verið að gera sömu háðungartilraunina, sem gerð var hér í deildinni fyrir fáum dögum, þegar þingdeildin átti eftir tillögu 2 háttv. þingmanna að neita aftur um styrk til Good-Templara reglunnar, sem búið var að veita fyrir fáum dögum. En í ólíkt stærri stíl nú en þá.

Það er hvorttveggja, að alþingi nýtur nú að minni hyggju ekki neinnar framúrskarandi virðingar hjá landsmönnum, enda er ekki mikið gert af sumum þingmönnum til að halda uppi heiðri þess og sóma. En eg vona, að um þessa tilraun til að hnekkja virðingu okkar fari sem hina fyrnefndu, að hún verði feld, feld með miklum atkvæðafjölda. Eg get ekki skilið, hvernig nokkrir menn með viti geti hugsað sér, að menn með heilbrigðri skynsemi og sæmilega næmri sómatilfinningu greiði nú atkvæði þveröfugt við það sem þeir gerðu fyrir 2 árum, að sömu þingmennirnir, sem þá sömdu og samþyktu bannlögin, felli þau nú.

Eg segi af ásettu ráði felli þau nú. Hér er að vísu að eins talað um frest. Og til að réttlæta hann er hrófað upp ýmsum rökum, er hrynja jafnskjótt sem við þeim er snert. Því er slegið fyrir, að tekjur vanti í landssjóð, og að eina ráðið til að bæta úr vandræðunum sé það, að fresta bannlögunum. Hinn upphaflegi flutningsmaður þessa frestunarfrumv. í efri deild hélt langa og snjalla ræðu út af því, að hér væri alt á hvínandi hausnum, menn væru að sökkva í botnlausar skuldir, alt gjaldþol að hverfa. Í öllum þessum vanda það eina úrræðið, að fresta bannlögunum, og leyfa innflutning áfengis 3 næstu árin, svo allir gætu selt og veitt og drukkið nægju sína. Já, þarna var fundið ráðið til að koma okkur úr kútnum og efla velmegun og gjaldþol í landinu.

Eg segi aftur að hér sé verið að gera tilraun til að fella bannlögin. Frestur er á illu beztur, segir máltækið. Andbanningar hér á þingi og landi þekkja þetta. Eg þykist vita til hvers refirnir eru skornir. Tilgangurinn með frestuninni er að fá lögin úr sögunni. Eg geri ekki mun á 1, 2 eða 3 ára frestun. Menn vita vel, að ekki er til neins að koma nú með frumv. um að nema lögin úr gildi. En þeim er auðvitað nóg að fá þeim frestað til þess að nema þau úr gildi á næsta þingi, ef þeir hafa bolmagn til þess þá. Eg hygg, að ekki sé hægt fyrir andbanninga að bera á móti þessu. Það er gagnslaust að halda því fram, að fjárhagslegar ástæður séu fyrir þessu frumv. Slíkt er algerð fjarstæða. Það liggur í augum uppi til hvers allur þessi gauragangur er. Spakur maður hefir sagt, að orðin væru til þess að dylja hugsanirnar. Óvinum bannlaganna hefir þó ekki tekist að dylja hugsanir sínar nú, því bæði eg og aðrir sjá mjög vel, hvað vakir fyrir þeim í þessu máli. Við sjáum í spilin hjá þeim. Þjóðin sér það, og mun á sínum tíma sýna, að hún hefir séð og skilið tilgang þeirra, þann tilgang, að koma lögunum fyrir kattarnef.

Margar orsakir geta verið til þess, að menn keppi að þessu marki. Eg ætla ekki að telja þær orsakir upp. En ekki get eg stilt mig um að minnast á 2 þeirra, sem sjaldan er að vísu minst á, en eg hygg að talsvert séu þungar á metunum hjá sumum andbanningum.

Eg drep þá stuttlega á þær.

Íslendingar mega ekki verða of sjálfstæðir. Þá er svo hætt við, að þeir láti sér ekki nægja fyr en þeir verða fullvalda þjóð, fær til að ráða sínum eigin málum að öllu leyti. Þá er svo hætt við, að þeir kunni að slíta af sér tjóðurbandið. En nú er vitanlega ekkert, sem getur stutt jafnvel að því að gera Íslendinga andlega og efnalega sjálfstæða menn sem það, að bygt verði út úr landinu allri áfengisnautn, og um leið þeirri margvíslegu bölvun, sem henni er samfara.

Íslendingar mega ekki vekja of mikla athygli hjá erlendum þjóðum. Aðrar þjóðir mega ekki vita of mikið um Íslendinga. Héðan má ekki berast of mikið frægðarorð. Það má ekki koma fyrir, að veslings Ísland, fámenna og fátæka landið, vinni sér til ágætis, afli sér heiðurs fyrir augum stórþjóðanna. Það gæti þá farið svo, að einhver þeirra vaknaði til þess að leggja lítilmagnanum liðsyrði í sjálfstæðisbaráttunni.

Eg vil minnast á fleira.

Af því Ísland hefir til þessa komist lengst af öllum þjóðum með það mál, sem einnig er efst á dagskrá hjá fjöldamörgum mentaþjóðum, og af því íslenzka þjóðin er sú eina þjóð, sem eignast hefir aðflutningsbannslög, sem með næsta ári eiga að komast til framkvæmdar, þá horfa bannlagamenn um allan heim með mikilli eftirvæntingu til okkar. Við höfum hér orðið á undan öllum öðrum þjóðum með það mál, sem teljast verður eitt af allra stærstu málum heimsins. Hingað er horft með athygli úr víðri veröld. Hvað verður úr þessu máli, sem hefir alheims þýðingu, hvað verður úr því hjá þessari fámennu, einkennilegu þjóð yzt í úthafinu? Svona er spurt víðsvegar með óþreyju. Miljónirnar úti í heiminum finna, skilja og vita, að barátta sú, sem við fátæklingarnir og fámenningarnir hér erum að berjast, hefir afarmikla þýðingu fyrir allan heiminn. Það er bersýnilegt og ótalmörgum vitanlegt, að geti bannlögin ekki þrifist á Íslandi, sem er svo afskekt land og hefir í þessu efni betri afstöðu en flest önnur lönd, þá geta þau ekki þrifist og blessast annarstaðar. Við Íslendingar erum að gera tilraun, sem ef hún tekst okkur vel, mun hafa mikla blessun í för með sér fyrir allar þjóðir heimsins. Ef bannlögin gefast hér vel, munu stórþjóðirnar hver á fætur annari koma á eftir. Dæmi okkar fáu þúsunda verður þá fögur fyrirmynd til eftirbreytni fyrir miljónirnar mörgu víðsvegar meðal menta- og menningarþjóðanna.

Hér er því um þjóðarmetnað að ræða; okkar þjóð hefir aldrei fengið æðra og veglegra starf að vinna, og eg efast um, að henni bjóðist nokkru. sinni jafngöfugt og háleitt starf að vinna og hún hefir fengið nú, með því að varðveita bannlögin. Sæmd hennar og virðing er undir því komin, að varðveita þessi lög, með því að sjá um, að þau komi þegar til framkvæmda, eins og í fyrstu var ákveðið. Frá því má alls ekki víkja. Allur frestur væri óþolandi, hversu lítill sem hann væri. Þessa bið eg góða menn að minnast, og minnast þess einnig, að hver tilraun til þess að fá lögunum eða framkvæmd þeirra frestað, er um leið tilraun til þess að fella lögin algerlega; en yrði það, mundi þjóðin okkar bíða óbætanlega skömm og óbætanlegan skaða. Og gerum því ráð fyrir því versta; setjum nú svo, að bannlögin gæfust hér illa, og að sú raun yrði á með tímanum, að þau ættu hér ekki við, þá ættum við auðvitað að afnema þau, þegar nóg reynsla væri fengin, en fyr ekki. En þó svo færi, þá hefðum vér Íslendingar sæmd af því að hafa gert þessa tilraun í máli, sem varðar alheiminn svo miklu, svo það er jafnvel líka þá um þjóðarmetnað að ræða, að halda fast við þessa fyrirhuguðu tilraun. Þótt tilraunin gæfist illa, hlyti þjóðin að hljóta sæmd og hrós hjá erlendum þjóðum fyrir það, að hafa árætt þetta, og fyrir það, að hafa haft þrek og þol til þess að halda því nægilega lengi áfram, þangað til full sönnun væri fengin fyrir því, hvort það ætti við eða ekki.

Hvernig sem á þetta mál er litið, fæ eg ekki betur séð, en að allir þeir, sem í raun og veru er ant um sæmd og heiður Íslands og íslenzku þjóðarinnar, verði að telja sér skylt að fella þetta frumv. nú þegar, kveða nú niður þennan draug, hvort sem hann hefir verið vakinn upp af fávizku og fullu skilningsleysi á málinu, eða af öðrum hvötum. Eg vona að við allir, sem hér í deildinni fyrir tveim árum samþyktum bannlögin, greiðum nú einum rómi atkvæði móti frestun þeirri, sem hér er farið fram á, fellum málið bæði frá nefnd og annari umræðu, kveðum drauginn niður fyrir fult og alt. Málið er svo augljóst, að það er engin ástæða til að setja það í nefnd. Það er einungis til þess að tefja tíma, að vera að setja nefnd í það. Þetta mál er leiðindamál, það liggur sem þung martröð á mörgum góðum dreng. Það á að falla strax nú í kvöld eða á næstu stundu.

Enginn vafi er á því, að meiri hluti þjóðarinnar telur oss skylt, að standa hér sem einn veggur, að standa eins og klettur, gegn þeirri ósvífnu, háðungarfullu tilraun, sem verið er að gera, til þess að hnekkja sæmd og virðingu þjóðarinnar og til þess að baka okkur sjálfum skömm og skaða. (Forseti (hringir): Þetta eru ofhörð orð). Satt er það, að orðin eru hörð. En þau eru sönn. Og sönnustu orðin eru hörðustu orðin, en nú eru þau sögð, og komin til skrifaranna, og munu standa í þingtíðindunum á sínum tíma, auðvitað á minni ábyrgð.

En jafnvel fleiri, miklu fleiri en meginþorri íslenzkra kjósenda, ætlast til þess og væntir þessa sama. Jafnvel miljónir meðal siðmenningarþjóða heimsins, beztu mennirnir margir, og þeir sem framarlega standa í sannri mentun og sönnu siðgæði, þeir mundu óska þessa, ef þeir vissu, hvað til stæði hér í dag. Eg fyrir mitt leyti skal gera skyldu mína, og það munum við allir gera, sem skiljum þýðingu bannlagamálsins, og þekkjum skyldu vora sem þingmenn alþingis Íslendinga.