24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætlaði ekki að tala í þessu máli í dag. En ræður hinna tveggja bannmanna, sem hafa tekið til máls hér í dag og talað um þetta mál, hafa komið því til leiðar, að eg verð að segja nokkur orð, því eg skammast mín fyrir að standa í hóp með þessum mönnum.

Eg er eldri bannmaður en hvor þessara manna fyrir sig, því eg hefi verið bannmaður í 24 ár og aldrei hvikað frá þeirri stefnu. Eg hafði lengi verið bannmaður, þegar háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) vissi ekki hvað bann var, og það var eg, sem kendi Goodtemplarreglunni og honum það. En mér þykir vansi að standa í hóp þeirra manna, sem ekki kunna að haga orðum sínum öðru vísi en móðursjúkar konur.

En eg er bannmaður af alt öðrum ástæðum en þeir, sem mest hafa um þetta gasprað. Eg heyrði ástæður þeirra í þinginu 1909, en var þeim nær öllum ósamþykkur, en þó var eg með bannlögunum. Þeir, sem segja, að eg sé ekki með bannlögunum nú, þeir fara með ósatt mál. En eg er ekki með bannlögunum af því að eg álíti, að vínið sé eitur eða ólyfjan, sem ekki megi hafa um hönd, því þá hefði Jesús frá Nazaret ekki breytt vatni í vín í Kana. Ég álít vínið saklaust og góða guðsgjöf, mönnum bæði til gleði og hollustu — sé rétt með það farið. Eg á hér einkanlega við vín, en ekki spíritus. En eg er bannmaður, af því það eina ráð, sem bezt hefði verið sæmandi móti víninu, hefir ekki getað lærst mönnum. Menn hafa ekki enn lært að nota vínið rétt. Hvaða landi hefir tekist að firra þjóðina því böli, sem af víninu leiðir? Eg játa það, að æskilegast væri að geta upp alið mannkynið svo, að það gæti neytt víns án þess að misbrúka það. En mannkynið hefir haft þúsundir ára, frá Nóa dögum til þessa dags, til að læra þetta. En það hefir ekki tekist enn. Tjónið af misbrúkun víns, í manndauða, heilsuspilli, jafnvel í ættir fram, siðspilling, þrekveiklun og glæpir (ekki að tala um vinnutjón — beint peningatjón), þetta er svo gífurlegt, að það hlýtur að vaxa samvizkusömum mönnum í augum. Og þegar bölið, sem af víninu leiðir, er meira en gagnið, þá verður hér sem í öllu öðru, að leggja á metin tjón og ávinning. Eg veit, að bannið hefir líka tjón í för með sér á fleiri en einn veg; en þar til er eg sé af reynslunni, að það tjón jafnist á við tjónið af áfenginu — þangað til verð eg bannmaður. En þegar okkur er borið það á brýn, sem erum með þessu frumvarpi, sem hér liggur fyrir, að ef við samþykkjum það, þá séum við að svíkja ættjörðina, þá dettur mér í hug orð, sem ekki má segja hér, af því það er ekki þinglegt orð. En sá þm., sem eins og háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) dróttar þessu að þingmönnum, hann hefði aldrei átt á þing að koma og kemur vonandi þangað aldrei aftur.

Háttv. ræðumaður sagðist halda, að þetta þing mundi ekki njóta virðingar hjá þjóðinni. Það er meiri hluta maður, sem þetta segir, og er það harður sjálfsdómur. Hann sagði, að refarnir væru til þess skornir að fá bannlögin úr sögunni. Þetta segir hann að eins til að sverta okkur, sem erum miklu betri og heiðarlegri bannmenn en hann. Hann sagði, að við vildum ófrægja landið okkar og vildum ekki að Íslendingar geti sér frægðarorð. Eg skil ekki að eg eftir þessi orð skuli sjá hann hér rétt hjá mér. Eg hefði búist við, að hann mundi hverfa niður í jörðina af blygðun — ef hann kynni að blygðast sín.

Hann sagðist gera ráð fyrir, að lögin gætu reynst illa, en taldi þau þó sæmd fyrir þjóðina. Ef eg hefði haft þá trú, eins og hann, að þau reyndust illa, þá mundi eg ekki hafa greitt þeim atkv.

Hann kallaði viðleitni okkar ósvífna tilraun til að fyrirkoma sæmd hinnar íslenzku þjóðar, og kvað okkur ganga ilt eitt til. Sá maður, sem svo talar, er háðung hverju þingi, alls óverður að sitja á þingi. Eg ímynda mér, að þetta mál fái að fara í nefnd, enda er það tíu sinnum betra mál en lögin um frest á tollgreiðslu, þau geta ekki bætt fjárhaginn. Við, sem viljum greiða úr vandræðunum, erum vissulega betri bannmenn heldur en þeir, sem ekki vilja gera neitt til að bæta þann missi, sem af bannlögunum leiðir. Því að það skal sannast, að aðferð manna eins og þm. Sfjk. (B. Þ.) mun reynast bannlagastefnunni til tjóns, en ekki gagns, til lengdar.