24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Hálfdan Guðjónsson:

Það tala ýmsir um það, að þessu frv. sé ekki ætlaður langur aldur og eg óska að það sé sem skemst að veltast fyrir hér í deildinni. Eg skal ekki neita því, að mér kom á óvart, þegar þetta frv. kom fram. Mér hefði naumast dottið í hug, að nokkur hefði áræði til að koma fram með slíkt frumv. á, þessu þingi, en hitt þó enn ólíklegra, að það skuli koma frá bannmanni, manni, sem á síðasta þingi var stuðningsmaður bannlaganna. Hitt hefði verið eðlilegra, að það hefði komið frá andbanningi. Sum lög eru þess eðlis, að þau þurfa breytinga við. Við reynsluna koma fram annmarkar eða breyttar kringumstæður. En það getur ekki átt við þessi lög. Þau hafa ekki getað sýnt það ennþá, hvort þau munu reynast vel eða illa; auk þess eru þau þess eðlis, að það þarf langan tíma til að hið rétta gildi þeirra komi í ljós. Að bera fram frumv. nú þegar um það að fresta þessum lögum er ekki annað en samþykki á því, að það hafi verið unnið hið mesta glappaskot með því að samþykkja lögin. Ástæður fyrir þessu lagafrumvarpi munu fleiri en þær, sem hafðar eru í hámæli. Af þeim er sú hin eina, sem fram er borin nokkurs virði, að fjárhagur landssjóðs sé svo bágur, að hann þoli ekki tekjumissinn. Eg skal ekki bera á móti því, að landssjóður þurfi tekjuauka, en eg finn enga aðferð óheppilegri til fjárauka en þá, að káka við bannlögin. Alt má of dýru verði kaupa, eins tekjur landssjóðs sem annað. Eg lít svo á, að það séu einkennileg bjargráð, að láta þjóðina eyða, til þess að landssjóður fái þar skerf af, eyða krónum saman til þess að aurar safnist í landssjóðinn. Hygg eg það til engrar blessunar, enda er fleira en féð, sem í veði er, þegar áfengið er annars vegar, bæði heilsa, siðgæði og mannslíf. Nú á að drekka til þess að bæta fjárhag landsins, það er þetta, sem þeir vilja styðja fylgismenn frumv. þessa. Það er ekki óheyrt, að einstaklingarnir grípa til þeirra örþrifráða, að drekkja áhyggjum sínum í víni. Happaráð hefir slíkt aldrei þótt né hamingjudrjúgt. Og það mun ekki heldur reynast þjóðinni svo fremur en einstaklingunum. Hér er sómi þings og þjóðar við bundinn. Það er mikil eftirtekt, sem þessi lög hafa vakið á Íslendingum meðal annara þjóða. Eg las í blaði í vetur og hefi ekki séð neinar mótbárur á móti því, að útlend félög hafi álitið þau svo mikils verð, að þau hafi viljað sýna virðingu sína á þessu máli með því, að styðja að því með fjárstyrk, að bannlögunum væri haldið við og þessari viðleitni. Mundi því þykja einkennilegt út um heiminn, ef við kvittuðum fyrir þann styrk með þessu frv. og hættum við alt saman þegar í byrjun. Það væri heiðarleg kvittun, sem við gæfum fyrir þeim erlenda styrk, sem okkur er veittur í viðurkenningarskyni, að við værum nú að hætta við alt saman.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) var að tala um einhvern sjúkdóm, sem gripi menn, þegar eitthvað væri minst á bannlögin. Eg get líka talað um sjúkdóm í sambandi við þetta frv. Það er verið að sýkja bannlögin, það er spýtt inn í þau ólyfjan, sem leiðir til uppdráttarsýki og það er harla kynlegt, að þeir menn, sem málinu voru fylgjandi á seinasta þingi, skuli ekki geta skilið það.