24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Viðvíkjandi ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) skal eg leyfa mér að benda á það, að sjálfstæðisflokkurinn var í meiri hluta í þingbyrjun og hafi meðlimum hans fækkað, þá á flokkurinn sjálfur sök á því. Einnig er flokkurinn ennþá í meiri hluta í Nd. og sameinuðu þingi og verður því að bera alla ábyrgðina á virðingu þingsins vegna aðgerða þess meðal þjóðarinnar.

Eg get ekki skilið, hvernig háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) gat séð árás á bannlögin felast í þessu frumv. Hann sagði, að ef við vildum ná í aura, þá væru nógir vegir til þess. En hvar eigum við að taka peningana, meðan hvorki eru til lög um það, eða lagafrv., því að ekki er hægt að neyða okkur til þess að taka við hverri óhæfu, sem fram er flutt.

Háttv. þm. þótti lögunum haggað með þessu frv. Eg vil nú spyrja bæði hann og aðra háttv. þm., sem ant er um lögin, hvað mundu þeir segja til þess, ef framkvæmd laganna væri að eins frestað um 2 ár, en lögin gengju öll fullkomlega í gildi 1914? Vegur væri það og bannið kæmist fyr á. Hafa háttv. þm. athugað þetta. Þar sem háttv. þm. mintist á erlendan fjárstyrk, þá gat eg ekki að mér gert að brosa. Háttv. þm. mun þar eiga við fé það, sem fengist hefir hjá Alþjóðastúkunni. En er það erlent fé? Nei, það er að eins lítill hluti af öllum þeim skatti, sem við höfum goldið til Hástúkunnar.