24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Benedikt Sveinsson:

Eg get ekki fallist á röksemdir andmælenda þessa frv., að það sé banatilræði við bannlögin. Það er alger misskilningur og fara því gífuryrði þeirra fyrir ofan garð og neðan. Háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) sagði, að frumvarp þetta væri borið fram til þess, »að allir gætu selt og veitt og drukkið nægju sína« af áfengum drykkjum. En eg vil benda háttv. þm. á það, að þetta geta menn eins vel gert næstu þrjú ár eftir 1911, þó að frv. verði felt. Vínsala er heimiluð jafn lengi fyrir því, svo að »allir geta selt og veitt og drukkið« hvað sem þessu frumvarpi líður. Í því efni verður engin breyting. En frv. fer fram á það, að bætt verði úr verstu meinlokunni, sem seinasta þing setti í bannlögin. Það var tvískinnungurinn, að banna að flytja inn vín eftir 1911, en leyfa mönnum að selja það í landinu til 1915. Eg get ekki skilið í bannmönnum að hafa svo mikið á móti þessu frv., sem einmitt afstýrir hættulegasta galla bannlaganna. Eg hélt, að þeim ætti að vera það mestur áhuginn að nema tvískinnunginn burt, með því að fresta framkvæmd á innflutningsbanninu til 1915, svo að sölubann og aðflutningsbann kæmi í lög samtímis; það mætti eins vera um næstu áramót, eða 1914. — Þessi ákvæði frá seinasta þingi eru ekki til annars, en að gefa mönnum þriggja ára skólatíma til þess að æfa sig í því að fara í kring um lögin, svíkja toll og læða víninu í landið og löggjafarvaldið ætti sannarlega ekki að hjálpa til slíks.

Eg hygg því, að rétt sé að samþykkja þetta frv., en á hinn bóginn virðist mér málið svo einfalt, að óþarft sé að setja það í nefnd. Það er nauðsynlegt að vita sem fyrst um afdrif þess, því að frv. stendur í svo nánu sambandi við ýms önnur mál, sem fyrir þinginu liggja og snerta fjárhaginn. Að frv. sé nokkurt svikræði við bannlögin er hin mesta fásinna og fjarstæða. Mér er fullkunnugt um það, að flestir bannféndur óska þess, að bannið komist sem fyrst á og sýni sig, hvernig það reynist.