21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Framsögum. (Ólafur Briem):

Frv. þetta mun þykja nokkuð nýstárlegt, og væri ekki furða, þótt hljóð heyrðist úr horni til þess að andmæla því. Með frv. er lagt út á nýja braut, þar sem það fer fram á einokun. Að vísu er einokun ekki óþekt hér, en þetta nafn mun ekki láta vel í eyrum, því það minnir svo mikið á gömlu einokunarverzlunina. Þar með er þó ekki sagt, að stefnan sé ekki réttmæt í sjálfu sér, því að það er svo mikið komið undir fyrirkomulaginu og framkvæmdunum, að það sem reynist vel í einu, reynist ekki vel í öðru. Nú sem stendur er hér á landi einokun á lyfjaverzlun. Sömuleiðis er að nokkru leyti einokun á póstmálum og símamálum. Að því er sérstaklega snertir símamál, virðist sú stefna vera ríkjandi, að landið eitt eigi að hafa þau með höndum. Þessu til sönnunar skal eg benda á það, að ýms símakerfi, sem áður hafa verið eign einstakra manna eða bæjarfélaga, eru nú orðin eign landsins. Og liggur nú fyrir þinginu tillaga um, að landssjóður kaupi talsímakerfi Reykjavíkur.

Í frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, er farið fram á að leggja einokun á ölgerð og ölverzlun í Reykjavík og snertir því bæði framleiðslu og verzlun. Máli þessu hefir yfirleitt lítið verið hreyft að undanförnu. Blaðið Norðurland mintist þó 1908 á það, að landið tæki að sér einokun á tóbaki. Milliþinganefndin í skattamálum tók vel í þetta og beindi því að stjórninni til athugunar og undirbúnings. Síðan hefir blaðið Reykjavík minst á þetta í vetur. Einokun getur verið hagað mismunandi, t.d. getur verið álitamál, hvort landið eigi að hafa einkarétt bæði á tilbúningi og sölu vörunnar eða einungis á sölunni og getur þá aftur komið til álita, hvort varan skuli seld fyrir reikning landsins eða að það selji einstaklingum eða félögum, t. d. bæjarfélögum einkaréttinn í hendur fyrir ákveðið gjald. Einokun hefir þá kosti til að bera fram yfir tollana, að hægt er að setja skattinn eða gjaldið mismunandi eftir verðmæti og gæðum vörunnar, en tollarnir eru að því leyti meira settir af handahófi, án tillits til vörugæða. Ennfremur er hægra að hafa eftirlit með henni en tollunum, og auk þess er fremur hægt að fá tryggingu fyrir góðri og ósvikinni vöru. Það má einnig benda á það, að við það að setja á stofn einokun þá, er frumv. fer fram á, verður atvinnan innlend. Og loks er á það að líta, að arðurinn af henni, sem rennur til landssjóðs, er ekki viðbót við það, sem hlýtur að falla á vöruna og auka hana í verði, heldur hlutdeild af ágóðanum, sem aðrir hafa nú. En afleiðingin af því er aftur sú, að þessi tekjuauki, sem landssjóður hefir, er ekki útgjaldaauki fyrir einstaka menn. Eg efa ekki, að svo framarlega sem þetta spor væri stigið nú og gæfist vel, mundi það ekki verða það síðasta spor í þessa átt. Mál þetta er allvel undirbúið. Það er aðallega skrifstofustjóri Jón Krabbe, sem fengist hefir við undirbúning þess. Er hann kunnur að því, að vera gætinn maður og glöggur í fjármálum, og er nákunnugur allri útlendri skattalöggjöf. Hefir hann borið sig saman við forstjóra hinna sameinuðu ölgerðarhúsa í Kaupmannahöfn og leizt forstjóranum vel á málið og hefir heitið því að greiða fyrir því með upplýsingar o. fl., ef þess gerist þörf. Það er heldur ekki ætlast til, að landsstjórnin hafi með höndum undirbúning málsins, heldur bæjarstjórnin hér og á hún samkvæmt frumvarpinu að hafa næstu 2 ár til þess.

Skal eg svo ekki fara fleiri orðum um mál þetta að svo stöddu.