21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Bjarni Jónsson:

Þetta, sem eg sagði um frumv. gerði eg til þess að vekja athygli manna betur á því, og það, sem háttv. framsögumaður sagði, hefir ekki minkað tortryggni mína á frumv. Það gæti borgað sig betur, ef samkepni er ekki. Það er þægilegra fyrir menn, sem hafa einkaleyfi að reka atvinnu, eins og á sér stað með lyfjabúðina hér og taka á þann hátt gróða sinn úr vasa landsmanna. Menn eiga að líta hornauga til landsmanna, þegar rætt er um það að veita einkaleyfi.

Það er meiri hagur af því að vinna að eins á einum stað en fleirum stöðum. Það má vel vera, að menn drekki óáfengt öl hér, þótt eg segði hitt í spaugi áðan, að menn mundu drekka vatnið, þegar aðflutningsbannið kæmi og menn hættu að drekka sér til gleði.

Hér stendur í frumvarpinu, að veita eigi einkarétt til sölu á öllum öltegundum, sem flytjast til landsins. Þetta væri ekki úr vegi að athuga nákvæmar lítið eitt.

Þetta, sem eg hefi hér sagt, hefi eg ekki sagt til þess að drepa frumvarpið, heldur til þess að vekja menn til umhugsunar um, að hér er verið að leggja inn á nýja braut, með því að einoka sölu á einstökum tegundum, og það er nýtt að veita einkaleyfi til þess að setja á stofn hér iðnaðarfyrirtæki. Þar með er þó ekki sagt, að það sé rangt og sérstaklega má benda á, að tóbaksverksmiðjur verður landið að setja á stofn, ef tóbakseinokun kemst á.