24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Framsögum. (Ólafur Briem).:

Nefndin hefir leyft sér að koma með nokkrar breytingar við frumv. Fyrsta breytingin er sú, að stafliður a. í 3. gr. frumv. falli burtu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að heppilegra væri að fella burtu þennan lið, með því, að óþarft væri að hafa í lögunum sérstakt ákvæði til að tryggja landsmenn gegn því að útlendingar yrðu fyrri til að ná í hluti í ölgerðarfélaginu.

Þá hefir nefndin gert breytingu við staflið c í 3. gr., sem miðar að því, að lækka hlutdeild landssjóð í ágóða félagsins og gera þannig aðgengilegra fyrir menn að stofna slíkt félag.

Í frumv. er ágóði landssjóðs ákveðinn ¾ hlutar af gróða félagsins eftir að greiddir eru 5% vextir af hlutafénu, en í breytingartillögunum á þgskj. 705 er lagt til, að hann sé að eins helmingur af gróðanum eftir að greiddir eru 5% vextir af hlutafénu og ¾ eftir greiddir eru 6% vextir af því.

Breytingartillagan á þgskj. 705 við 4. gr. frumv. fer fram á, að maltdrykkir skuli heyra undir öltegundir og þótti réttara að taka þetta fram berum orðum. Þar á móti hefir nefndin ekki viljað aðhyllast þá breytingartillögu, er fer fram á, að í staðinn fyrir maltdrykki komi »önnur vín«. Ef þessi breyting væri samþykt, næði hún einnig til ávaxtavína. Nefndin vildi ekki fara svona langt og er því mótfallin, að láta einokun ná til allra drykkja. Sömuleiðis er nefndin á móti breyt.till. háttv. þm. Dal. (B. J.) á þgskj. 724 um að landstjórnin geti veitt sýslunefndum og bæjarstjórnum um land alt einkaleyfi til þess að selja þær tegundir drykkja, sem getur um í 4. gr., með sömu skilyrðum, sem þar eru sett, hverri í sínu umdæmi. Ástæðan fyrir því, að nefndin vildi ekki aðhyllast þessa breyt.till. er sú, að hér er lagt út á ókunna braut með frv. þessu. En hins vegar má síðar veita fleirum sams konar einkaleyfi, ef þetta fyrirtæki gefst vel og landsmenn sætta sig við það. Það er varhugavert að hafa leyfið víðtækt á meðan að óvíst er, hvernig það gefst.

Þá er breyttill. á þgskj. 705 um að eftir 5. gr. frv. komi ný grein, er hljóði svo: »Bann gegn tilbúningi áfengra drykkja samkv. lögum 12. jan. 1900 nær að eins til þeirra drykkja, sem í er meira en 2¼% af vínanda (alkóholi) að rúmmáli, þótt um staðjastað öl sé að ræða«. Nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að slá því föstu, að alt sé komið undir stigatali styrkleika ölsins, enda er þetta í samræmi við bannlögin.