24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Framsm. (Ólafur Briem); Um hlutdeild þá, sem landssjóður áskilur sér í gróða ölgerðarfélagsins, er auðvitað álitamál, og þýðir ekki að deila um það. En það, hvort frv. er aðgengilegt eða ekki, er ekki eingöngu komið undir því, hve mikið landssjóður á að fá af gróðanum, heldur einnig undir tímalengdinni, sem einkaleyfið á að gilda. Í frv. er ekkert ákveðið um það, nema að það skuli vera um tiltekinn tíma, en áratal er ekki nefnt, og landstjórnin hefir því ótakmarkað umboð til þess að ákveða það eftir samningi eða í samráði við bæjarstjórnina. En það skiftir miklu, hver ákvæði verða gerð um þetta.

Aðalágreiningurinn milli háttv. þm. Dal. (B. J.) og nefndarinnar er sá, að hann segir, að nefndin vilji láta alt annað gilda fyrir bæjarfélag Reykjavíkur en aðra hluta landsins, en þetta er ekki meiningin. Hér er ekki um aðra drykki að ræða en öl og maltdrykki. Gosdrykkir eru alstaðar undanskildir einkaleyfinu, og sá réttur, sem leyfishafi í Reykjavík hefði fram yfir aðra staði, væri þá bygður á því, að hér yrði eina ölgerðarhúsið. Ef t. d. ætti að stofna annað ölgerðarhús á Akureyri, þá væri auðvitað sjálfsagt að að þau hefðu bæði jafnan rétt. Þessi einkasöluréttur Reykjavíkur stendur því eingöngu í sambandi við það, að ölgerðarhúsið verður hér en ekki annarstaðar, svo að frá því sjónarmiði er ekkert að fást um. Hitt getur verið álitamál, hvort einkaleyfið, ef það er veitt á annað borð, að því er verzlun snertir, ætti að vera víðtækara en nefndin gerir ráð fyrir.

Þá skal eg enn minnast lítillega á brtill. á þskj. 724 frá h. þm. Dal. (B. J.) við 2. gr. frumv., um að bæjarstjórnin megi ekki áskilja bæjarfélaginu neinn hagnað af fyrirtækinu, sé það utan kaupstaðarlóðarinnar. Nú er það þannig, að bæjarstjórnin í Reykjavík hlýtur að hafa ótakmarkaðan rétt til þess að leggja útsvar á hvern sem er innan bæjarfélagsins, þótt utan kaupstaðarlóðarinnar sé, því að bæjarfélagið er stærra en kaupstaðarlóðin; þess vegna getur það ekki staðist að ákveða, að bærinn skuli engan hagnað hafa af verksmiðju, sem stendur fyrir utan kaupstaðarlóðina, það væri sama sem að banna að leggja útsvar á hana, enda mun það ekki hafa vakað fyrir þm., heldur hitt, ef verksmiðjan væri í öðru sveitarfélagi. Nú er sódavatnsverksmiðjan »Sanitas« í Seltjarnarneshreppi, og því að sjálfsögðu undanþegin útsvarsgreiðslu til bæjarfélags Reykjavíkur. Breyt.till. hins hv. þm. á því ekki við þetta dæmi, sem þó mun aðallega hafa vakað fyrir honum. Ef hv. þm. vill fara frekar út í þetta, þá verður hann að orða till. öðru vísi. Eg get því ei séð annað, en að það verði að fella þessa brtill. nú, en hvort ástæða kynni að vera til þess að koma með eitthvað í sömu átt við 3. umr., það skal eg láta ósagt