24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Framsögum. (Ólafur Briem):

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hélt því fram, að Reykvíkingar yrðu fyrir réttindamissi, ef ölgerðarhúsið fengi þennan einkasölurétt á útlendum öltegundum. En fyrir þessu er séð í athugasemdum við frumv., sem væntanlega verða teknar til greina, þegar leyfisbréf væri gefið út. Hann sagði, að þeir gætu ekki aflað sér þeirra öltegunda, sem þeir helzt vildu; en bæði verður ölgerðarhúsinu gert að skyldu, að panta og hafa til sölu allar þær tegundir, sem æskt er eftir, og svo hefir ölgerðarhúsið ekki heimild til þess að selja vörur sínar hærra verði en við gengist hefir að undanförnu. Þar sem hann tók það fram og þótti misrétti, að kaupmenn hér í bænum mistu rétt sinn til þess að selja þessar öltegundir, þá skal það játað, að þeir missa hann, en það leiðir af sjálfu sér, alstaðar og ætíð, þegar einkaleyfi er veitt, þá takmarkar það að sjálfsögðu rétt annara að því leyti, sem það nær til. Á því byggjast einmitt öll einkaleyfi. En ástæðan til þess að láta bæjarstjórnina hafa umráð yfir leyfinu og gæta þess, að öllum skilmálum sé fullnægt er sú, að þar með virðist fengin bezt trygging fyrir því, að fyrirtækið verði hyggilega stofnað og því haldið í góðu lagi, og þar sem sami þm. mintist á, að þetta gæti orðið gróðafyrirtæki, þá er það ekki nema rétt, að veita bæjarstjórninni leyfið og láta hana ráða, hver skilyrði hún vill setja því hlutafélagi, er vill taka þetta að sér, og er þá auðvitað meiningin, að félagið verði innlent.