28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Framsögum. (Ólafur Briem):

Háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) virtist leggja áherzlu á, að minni trygging væri fyrir því, að ölið væri rétt og forsvaranlega bruggað, ef einkafélag hefði ölgerðina á hendi, heldur en að það væri landið sjálft. En þetta er í raun og veru engin ástæða á móti frumv., því að hægt væri að láta efnafræðing landsins rannsaka ölið, svo að það, sem háttv. þm. gerir ráð fyrir, mundi brátt verða uppvíst. Að öðru leyti skildi eg háttv. þm. svo, að hann hefði ekki mikið við frv. að athuga. En hins vegar getur það verið álitamál, hvort rétt sé að afgreiða það frá þinginu nú.

Að því er snertir ummæli hv. þm. Dal. (B. J.) um frjálsa verzlun öltegundanna, skal eg geta þess, að samkvæmt bannlögunum frá 30. júlí 1909, má ekki flytja neina þá drykki inn í landið, er innihalda meira en 2¼% af vínanda (alkóhóli) eftir rúmmáli, er jafngildir

14/5% styrkleika eftir þyngd. En flest allir slíkir drykkir þola illa geymslu og flutning, og af þeirri ástæðu er lítt kleyft að flytja þá hingað til landsins frá útlöndum óskemda, svo að þótt ekki sé lagt bann við innflutningi þeirra, er mjög örðugt og lítt ábatavænlegt, að hafa þá hér til verzlunar (t. d. hvítöl).