01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

26. mál, skógrækt

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Eg skal taka það strax fram, að frv. þetta er í öllum atriðum samhljóða aðalatriðum, samhljóða núgildandi lögum, að því er snertir friðun skógs og kjarrs. Breytingar þær, er frv. ráðgerir, eru aðallega tvenns konar. Önnur breytingin eða fyrra atriðið er það, að hér er gerð tilraun til þess, að draga úr kostnaði við umsjón og eftirlit skóggræðslunnar, sem er geysimikill. Hitt atriðið er það, að hér er gefin heimild til þess, að afgirða stærra skóglendi en nú er til friðunar.

Um hið fyrra atriðið, eftirlitið með skógunum, er það að segja, að á núgildandi fjárl. eru veittar 10,500 kr. hvort árið til skóggræðslunnar. Eftirlitið hafa á hendi 5 menn, skógræktarstjóri og 4 skógarverðir. Til launa handa þeim fjórum fara árlega 4,500 kr. og í ferðakostnað 2,500 kr., eða samtals 7000 kr. í laun og ferðakostnað. Þá verða ekki eftir til sjálfrar skógræktarinnar nema 3,500 kr., eða þriðjungur alls fjárins. Það sjá allir, að þetta er athugavert, að miklum meirihluta fjárins skuli vera varið í ferðakostnað og laun til starfsmannanna.

Hitt er þó ef til vill öllu þýðingarmeira, að heimilt sé að taka skóglendi til friðunar, ef það er að ganga úr sér, og ætti landstjórnin þá að hafa heimild til að taka það gegn hæfilegri þóknun fyrir afnotamissi. Nú er eigi heimilt að friða á þennan hátt nema 10 dagsláttur, en frv. fer fram á, að taka megi alt að 25 hektara, eða 77 dagsláttur, og tel eg það mikla bót frá því, sem nú er.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vænti að málið komist í nefnd, og skal eg leyfa mér að stinga upp á 5 manna nefnd.