20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

26. mál, skógrækt

Stefán Stefánsson:

Eg hefi getað orðið háttv. meðnefndarmönnum mínum samferða í öllu, nema að því er snertir launahækkun skógræktarstjórans. Eg lít svo á, að 2,400 kr. laun séu fullsómasamleg handa embættismönnum hér á landi, nema þá þeim, sem sitja í hinum allra hæstu valda- og virðingarsætum. Aftur hafa háttv. meðnefndarmenn mínir allir orðið á einu máli um það, að þau skuli hækka smám saman, eða á fyrstu 6 árunum úr 2,400 kr., sem ákveðnar eru í frv., og upp í 3,000 kr. Þessari launahækkun telja þeir það til meðmæla, að því lengur sem maðurinn sitji í embætti, því meiri fjölskyldu geti menn búist við hjá honum. Eg neita því nú fyrst og fremst, að þetta sé algild regla, og þess ber líka að gæta, að embættismenn þurfa einatt að eyða allmiklu fé einmitt fyrstu árin til þess að borga skuldir þær, er þeir hafa safnað á skólaárunum. Þá þurfa þeir líka að kaupa sér húsbúnað og annað, sem til þarf þegar þeir setja sig niður. Það er því mjög mikið efamál, hvort fremur ber að taka tillit til fyrtaldrar hækkunarástæðu en þeirrar, sem eg nú gat um, og fyrir mér vakir sem næg ástæða til þess að vera á móti launahækkun skógræktarstjóra.

Eg hefi svo ekki mikið um þetta að segja annað en það, að mér þykja laun þau, sem frv. ákveður, sómasamleg, þar sem þau eru 200 kr. á mánuði, og það álít eg fullkomlega samsvarandi okkar efnahag. Eins og þjóðin er efnum búin, álít eg að ekki eigi að fara að verðlauna embættismenn fyrirfram, áður en menn vita, hvernig þeir muni reynast í stöðu sinni. Það er líka búist við því, að þessi maður hafi á hendi allmikil ferðalög, sem borguð verða sérstaklega, svo að það er ekki ástæða til launahækkunar þeirra vegna. Og eftir þeirri reynslu, sem fengin er, þá munu ferðalögin ekki draga frá kaupi þessara skóggræðslumanna.