08.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

75. mál, stjórnarskrármálið

Lárus S. Bjarnason:

Enda þótt hér sé ekki um neitt líkar breytingar á núverandi stjórnarfyrirkomulagi að ræða, sem þær er gerðar voru 1903, þegar stjórnartaumarnir voru dregnir úr útlendum höndum og lagðir í innlendar hendur, þá geymir þó frumvarpið mjög svo mikilvægar breytingar. Aðalbreytingin er hin geysimikla rýmkun kosningarréttarins eða dreifing aðalvalds þjóðarinnar á allar þær hendur, sem komið geta til mála. Ef frumvarpið gengur fram, fá ekki að eins allir karlmenn, heldur líka allar konur kosningarrétt. Konum er sem sé ekki að eins fenginn kosningarréttur, heldur er sá réttur fenginn öllum stéttum karla og kvenna, þar sem hjú nú eiga að fá þann rétt. Jafnframt kosningarréttinum fá allar konur og karlar kjörgengi til alþingis. Samkvæmt núgildandi lögum hafa hjú ekki kjörgengi til neinna sveitastjórna og kosningarrétt að eins til hreppsnefnda og bæjarstjórna, en ekki til sýslunefnda, og færi betur á, ef veita ætti þeim nú kosningarrétt til alþingis, að veita þeim um leið kosningarrétt til sýslunefnda og kjörgengi til allra sveitastjórna. Þessi afarmikla rýmkun, sem fjölgar kjósendum um meira en helming, getur haft ómælilegar afleiðingar í för með sér. Kjósendurnir eru í raun og veru aðalvaldhafar landsins. Kosningarbærir menn skipa ekki eingöngu alþingi heldur og óbeinlínis landstjórnina með atkvæðum fulltrúa sinna. Nú mætti búast við því, að þeir kjósendur, sem nú ráða lögum og lofum í landinu, óski ekki slíkrar rýmkunar á valdinu, enda gæti svo farið að þeir yrðu í algerðum minnihluta. Það gæti því komið til orða að takmarka nokkuð hina afarmiklu rýmkun neðri deildar á kosningarréttinum.

Og kem eg þá að 2. aðalbreytingunni, skipun efri deildar. Eg játa, að nokkurt aðhald er í nýmælinu um skipun hennar, jafnvel þó að kosningarréttur og kjörgengi til hennar sé eins og til neðri deildar. Það kemur til af því, að kjósa á til hennar (Ed.) með öðrum hætti. Nú eru þjóðkjörnir þingmenn, eins og allir vita, kosnir í einu lagi, en samkv. frv. á að kjósa þá til hvorrar deildar fyrir sig. Landið á alt að kjósa efrideildarmenn í einu. Það á að kjósa þá með hlutfallskosningu og kjörtímabil þeirra verður lengra en neðri deildarþingmannna. Það má búast við, að þannig kosin efri deild verði nokkur hamla á neðri deild. En þar sem kjósendur til beggja deilda eru hinir sömu og halda á sameinuðu þingi, þá mundi skipun efri deildar tæplega reynast nóg aðhald nema í bili, jafnvel ekki þangað til kjósendur vöknuðu til meðvitundar um sérhagsmuni sína. Eftir það mundi meiri hluti kjósenda ráða einn lögum og lofum í landinu, eftir sem áður, Mætti því ef til vill orða breyting hér að lútandi, er trygði betur rétt minni hlutans og héldi meir aftur af neðri deild.

Þá er enn ótalin 3. breytingin, sem hér er farið fram á, en ekki skiftir eins miklu máli, sem sé sú að lögfesta á með stjórnarskrárumbúnaði, að ráðherrar skuli vera þrír. Þegar litið er til þess, hve landið er fáment og alt óbrotið hjá oss, virðist þetta vera nokkuð íburðarfrekt og kemur ekki vel heim við tal manna innan þings og utan um að eigi megi fjölga embættismönnum að þarflausu. Eg skil ekki annað, en að einn ráðherra geti annað því, sem nauðsynlegt er í þessu efni, ef hann kann á annað borð að vinna, og er verkfær. Ráðherra á að eins að halda aðaltaumunum. Hann má ekki gína yfir öllu. Með því forsómaði hann aðalverk sitt, enda rekur engin nauðsyn til þess, að hann blandi sér í skrifstofustörf og þess háttar. Til þeirra hefir hann skrifstofulið sitt. Eg álít því þennan eina ráðherra, sem vér höfum, nægja í bráðina. Og ómögulega má fjölga þeim þannig að þjóðinni fornspurðri. Slík fjölgun mundi að minsta kosti kosta 10 þúsund krónur á ári auk eftirlauna, aukins skrifstofuhalds og aukningar við stjórnarráðshúsið. Hitt er auðvitað, að því fleiri sem ráðherrarnir eru, því fleiri geta gert sér vonir um að hreppa hnossið. En það væri helzt til dýrt verk — og vindeyðandi dropar, það.

Þá kem eg að 4. atriðinu í breytingum þeim, sem hér á að gera að lögum, — og er það takmörkun á frumkvæðisrétti alþingismanna á að bera upp breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Nú er því þannig háttað, að hver þingmaður hefir ótakmarkað leyfi til þess að bera upp breytingartillögur við fjárlögin, hvort sem um hækkun eða lækkun gjalda er að ræða. En samkvæmt frumvarpinu mega ekki aðrir bera upp breytingartillögur við fjárlögin, sem fara fram á ný eða aukin útgjöld, en ráðherrar eða fjárlaganefndirnar. Þetta ákvæði á víst að girða fyrir hrossakaupin svokölluðu. Það er vafamál, hvort þau mundu ekki að eins flytjast úr þingdeildarsölunum inn í ráðherraherbergið og til fjárlaganefndanna. En jafnvel þótt eg geri mér litla von um, að mikil bót yrði að þessu ákvæði, get eg þó, ef til vill, verið því fylgjandi, ef meiri og minni hlutar fjárlaganefnda mættu stofna til breytinga. Annars ætti minni hlutinn á hættu að verða algerlega ofurliði borinn.

Miklu fleira mætti segja um þetta merkilega frumvarp. En þar sem eg geri ráð fyrir að málinu verði að umræðu lokinni vísað til nefndar þeirrar er kosin var hér fyrir nokkru, læt eg hér staðar numið.