24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

26. mál, skógrækt

Framsögumaður (Pétur Jónsson):

Eg skal víkja dálítið nánara að breyttill. á þgskj. 260, fyrst flutningsmaður er búinn að mæla með þeim.

Eg hygg, að hvergi á landinu sé skilið annað við orðið hrís en fjalldrapi og víðir. Eg hefi haldið spurnum fyrir, hvað stjórnin hafi meint með orðinu í frumv., sem lagt var fyrir þingið 1909 og hefi fengið það svar, að merkingin væri fjalldrapi og smávíðir. Þótt ekki væri annað en þetta, þá er það nægilegt til þess að eg greiði atkvæði á móti breyt.till. En aftur á móti vil eg fyrir mitt leyti mæla með breyt.till. á þgskj. 300 við sömu grein.

Viðvíkjandi því, að ný grein komi, sem skyldi hreppstjóra til þess að fara um héraðið með skógarverði, þá býst eg við, að nefndin hafi ekkert á móti henni. Það segir sig sjálft, að skógarverðir hafi einhvern mann sér til leiðbeiningar, en þar sem eg þekki til eru bændur alstaðar fúsir á að veita þeim fylgd, svo að greinin virðist ekki bráðnauðsynleg.

Þá er enn ein breyt.till. viðvíkjandi því, að ný grein komi, sem skyldar skógræktarstjóra til að líta eftir landbrotum og þess konar og gefa skýrslu um þau. Eg hygg, að óþarft sé að samþykkja þessa grein. Eg veit, að skógræktarstjóri vinnur í þessa átt, þótt ekkert lagaákvæði sé um það.

Annars get eg tekið það fram, að nefndinni er ekkert kappsmál, að frv. nái fram að ganga. Ef háttv. deild þóknast að fella það, liggur í augum uppi, að hún hlýtur að veita meira fé til skógræktarinnar en nú er veitt. Og það verður að vera svo mikið, að fyrir það sé bygt, að verkalaun og ferðakostnaður gleypi helming fjárins, eða jafn vel meira.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) álítur, að það sé það eina rétta, að auka bara féð eftir þörfum. Það sé reglan, þegar maður leggi plan, að auka heldur féð, en klippa af planinu. En hitt er fult svo algengt hér hjá oss, að nægilegt fé er ekki fyrir höndum, heldur mjög takmarkað, og er þá sá einn kostur, að minka planið, og það er einmitt tilgangur þessa frumvarps. Mér er nú að vísu frv. þetta ekki sérlegt kappsmál. En eg hefi altaf álitið, að menn hafi að nokkru leyti flanað út í þetta skógræktarmál. Það hefir verið tekið nokkuð fram fyrir hendur þingsins, þótt það hafi hingað til staðið mótmælalaust. Það hafa verið skipaðir starfsmenn, án þess að þingið veitti nægilegt fé til þess.

Eg fyrir mitt leyti hygg, og hefi alt af álitið, að skógræktarmálinu væri bezt borgið, ef sú leiðin væri farin, að hafa sem mest áhrif á hugsunarhátt manna, svo að þeir taki það upp hjá sjálfum sér, að hlífa og hlynna að skógum og skógarleifum. Það væri kostnaðarminna og hefði betri árangur að blása eld að þeim kolum og laða menn til þess. Það hefir minna verið hugsað um það og málið falið þeim mönnum óskorað, sem örðugt eiga með þá aðferðina. Þetta varðar meiru en hitt, hvort hafðir eru 4 skógarverðir eða einungis 2.

Hvað þau rök snertir, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) var að færa á móti fækkun skógarvarða, að þeir hefðu bæði eytt fé og tíma í að afla sér þekkingar í þeirri grein, þá er því að svara, að raunar getur það verið óþægilegt, en staðan hefir hingað til ekki þótt vel launuð og mér skilst svo, að hæpið sé, hvort þeir þykist draga uppi með þau. En þá er heldur ekki tap fyrir hrausta og fullvinnandi unga menn, þótt þeir þurfi að snúa sér að annari atvinnu, því þeim verður ekki vorkent að vinna fyrir sér frekar en öðrum fullvinnandi mönnum.