26.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

26. mál, skógrækt

Hannes Hafstein:

Háttv. samþingismaður minn, 2. þm. Eyf. (St. St.), sagðist ekki trúa því, fyr en hann sæi það svart á hvítu, að ekki mætti segja skógræktarstjóra upp stöðunni, hvenær sem vera skal. Eg get í því efni bent honum á lögin frá 22. nóv. 1907. Þar getur hann séð það »svart á hvítu«, að laun skógræktarstjóra eru fast ákveðin, eins og laun annara embættismanna eða sýslanarmanna, en alls ekki gert ráð fyrir neinni uppsögn. Hann er skipaður í stöðuna eftir umsókn, en ekki ráðinn með samningi, eins og verkamaður. Það er því eigi hægt að víkja honum frá, nema hann geri sig sekan í einhverjum afbrotum, vanrækslu eða þvílíku, að öðrum kosti kosti heldur hann sýslan sinni með þeim launum, sem honum eru veitt með lögunum. Það var og annað atriði, sem hann hafði á móti, að skylda hreppstjóra til að ferðast um héruð með skógarvörðum. Hann hélt, að það væri einungis gert skógarvörðum til skemtunar og til að auka félagsskap. En lagaákvæðið hefir alt annan tilgang. Það er augljóst, að skógarverðir hafa ekki tíma til að fara til hvers einasta manns í sveitinni. Þeir verða því aðallega að snúa sér að einum manni, gefa honum upplýsingar og bendingar, til þess að hann geti kent öðrum frá sér aftur. Og hreppstjórarnir virðast bezt fallnir til þess. Þeir eru vanalega skýrir og skynsamir menn og til þeirra geta aðrir snúið sér, sem skógarverðir hafa ekki tök á að tala við. Eg álít, að þetta ákvæði megi alls ekki falla burt, það er einmitt skilyrði fyrir, að lögin komi að góðum notum.

Það er ekki að undra, þótt mikið fé fari fyrstu árin í ferðalög, því að aðaltilgangurinn hlýtur í byrjuninni að vera sá, að rannsaka, hvernig til hagar víðsvegar um landið. Það væri undarlegt, að fara að breyta lögunum um stjórn og fyrirkomulag skógræktar hér á landi af þeirri ástæðu, að ekki hefir verið veitt nægilegt fé á fjárlögum. Hitt liggur nær að hlýða lögunum, með því að veita það fé, sem þarf til að framkvæma þau. En það er ekki í trássi við lögin þótt aðaláherzlan sé fyrst í stað lögð á ferðalögin.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) gerði lítið úr því að stuðla að þessu máli með lögum, fór mörgum orðum um það, að affarasælla mundi að glæða áhuga manna á þessu framtíðarmáli, svo að þeir af sjálfsdáðum færu að hlynna að skógunum án lagaákvæða. En eg vil leiða athygli hans að því, að hvergi í öðrum löndum þykjast menn geta komið til leiðar neinu svipuðu og því, sem hér er um að ræða hjá oss, nema með því að skipa fyrir um það með lögum og taka framkvæmdina undir hið opinbera. Þannig hefir verið í þeim löndum, þar sem eyðilagðir skógar hafa verið endurgræddir öldina sem leið, og jafnvel í löndum, þar sem skógarnir eru og hafa verið í bezta blóma, sér stjórnin um, að skógarnir séu ekki eyðilagðir. T. d. í Danmörku, er fjöldi manna, er ríkið launar, sem fæst við skógarækt og skóggæzlu. Skógarnir hafa að mestu verið gerðir að ríkiseign og öll stjórn og gæzla þeirra lögð á hið opinbera. En að því er snertir skóga, sem eru í einstakra manna eign, er með lögum skipað fyrir um fastar reglur um skógarhögg, grisjan og gróðursetning nýrra trjáa, að viðlagðri hegning, ef út af er brugðið. Þannig er farið í mentalöndum, enda er það nú alment viðurkent, að skógarnir hafa hin mestu áhrif á veðuráttu landanna, regnfall og frjósemi. Ættum við einir að vera undantekning og ætlast til þess að menn bæti margra alda syndir og skemdir af sjálfsdáðum? Áhugi manna vaknar, þegar menn sjá, að eitthvað verður ágengt, sjá gagnið og fegurðina, hvernig landið grær upp og skógurinn vex. En lögin og landsstjórnin verður að ganga í broddi fylkingar, og án ríflegra fjárframlaga kemst þetta ekki áleiðis. Enda virðist ekkert athugavert við það, að menn séu skyldaðir með lögum til þess að fara vel með landið og spilla því ekki fyrir þjóðinni og framtíðinni.

Verði þessar breyt.till., sem eg hefi drepið á, ekki samþyktar, legg eg til, að frumvarpið í heild sinni verði felt.