24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

26. mál, skógrækt

Sigurður Gunnarsson:

Það er mikill ágreiningur um mál þetta, enda aðgætandi, að það er seinunnið og er að því leyti framtíðarmál. Eg hygg, að þingið geti ekki að svo stöddu lagt fram meira fé til skógræktunar, en gert hefir verið á þessu fjárhagstímabili. Og á meðan að að eins er hægt að veita 10—12 þúsund kr., geta skógarverðirnir ekki verið fleiri en tveir.

Háttvirtur framsögum. (P. J.) tók það réttilega fram, að aðalhlutverk skógræktarstjórans og skógarvarðanna ætti að vera, að vekja áhuga á málinu hjá almenningi og koma réttum hugsunarhætti inn hjá honum. Stórar fjárveitingar úr landssjóði til einhvers fyrirtækis mælast ekki vel fyrir, fyr en áhugi þjóðarinnar er vaknaður á því. Eg álít, að hreyfingin eigi að koma að neðan, en ekki að ofan, og þess vegna er eg hv. framsögum.

(P. J.) samdóma í þessu máli, en ekki háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), er sagði að hreyfingin ætti að koma að ofan.

Breytingartillögur nefndarinnar eru bygðar á þeim grundvelli, að oss þykir ekki fært, að leggja fram meira fé en gert hefir verið á þessu fjárhagstímabili og því hneykslanlegt, að svo miklu fé sé varið til launa og ferðakostnaðar starfsmanna. Eg þekki ekki skógræktarstjórann, en mér þætti vænt um að heyra, að hann væri laginn á að koma inn réttum hugsunarhætti hjá þjóðinni og gæti vakið áhuga hjá henni á málinu. Eg efa þó að svo sé. Aftur á móti hefi eg heyrt hinum skógarvörðunum hrósað.

Eg skal svo ekki lengja umræðumar um þetta mál, en leyfi mér að mæla með tillögum nefndarinnar.