08.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

75. mál, stjórnarskrármálið

Sigurður Hjörleifsson:

Eg geri ráð fyrir því, að háttv. þingdeildarmenn kæri sig ekki um að ákveða sig nú þegar um einstök atriði þessa frumvarps. Það er eðlilegt, að slíkt komi ekki mikið fram við þessa umræðu, en hinsvegar er heppilegt, að þingdeildarmenn noti nú tækifærið til að bera sig saman um ýmislegt, er að frumvarpinu lýtur. Sérstaklega gæti verið gott að heyra nú, hvað menn gætu orðið sammála um, og líka að heyra tillögur um ýms ákvæði frumvarpsins. Það gæti haft þýðing fyrir störf nefndarinnar.

Háttv. 5. kgk. (L. H. Bj.) hefir rætt nokkuð um mikilvægustu breytingarnar, sem hér er farið fram á. Hann mintist á víkkun kosningarréttarins. Hann áleit það mjög stórkostlega breyting. Um það munu allir sammála, að hún sé mjög stórfeld. Það er líka rétt, sem hinn háttv. þm. tók fram, að það má búast við því að þessir nýju flokkar muni geta haft mikil áhrif á stjórnmálin, að minsta kosti þegar fram líða stundir, og þeir hafa lært að skipa sér í fylking, og beita valdinu. Og hinn háttv. þm. spurði líka, hvort ekki mundi rétt að leggja einhverjar hömlur á þetta vald. Og hann benti á, að fyrsta hamlan, sem á það er lögð, er skipun Efri deildar. Með því skipulagi, sem hér er farið fram á, á að tryggja það, að hún verði meira íheldin en hin deildin. Háttv. sami þm. (L. H. B.) drap og á, hvort ekki mætti tryggja þetta betur en hér er gert. Eg fyrir mitt leyti tel mjög varhugavert að halda langt áleiðis á þeirri braut. Við höfum hér dæmið fyrir okkur hjá Dönum. 1866 gerðu þeir þá breyting á grundvallarlögum sínum, að þeir fengu landsþinginu mikið vald í hendur. Þeir hafa iðrast eftir því og þeim hafa staðið þar af mikil vandræði, eins og kunnugt er. Það er vert að íhuga, hvort okkur geti ekki staðið hætta af því að takmarka mikið það vald, sem Neðri deild og hinum nýju kjósendum er fengið í hendur með þessu frumvarpi. Þá er og annað ákvæði í þessu frumvarpi, sem getur takmarkað þetta vald, og það er ákvæðið um þekkingarskilyrði fyrir kosningarrétti. Það er sá galli á þessu ákvæði, að það er með öllu ótiltekið, hver þessi þekkingarskilyrði, sem heimtuð verða, eiga að vera. Slíkt yrði í raun og veru komið undir þinginu, sem semdi slík lög. Eigi að setja þekkingarskilyrði í stjórnarskrána, þurfa þau að vera tiltekin nákvæmlega. Í stjórnarskrá Belgja er t. d. ákvæði um, að menn, sem fullnægi vissum tilteknum þekkingarskilyrðum, skuli hafa fleiri atkvæði en eitt. En eins og þetta er orðað í þessu frumvarpi, er það alt of óákveðið og ótiltekið. Með þessu er búinn til vegur til þess, að svifta allmikinn fjölda kjósenda kosningarrétti, en slíkri lagasmíð væri lítt bót mælandi.

Þá er það íhugunarvert, að hve miklu leyti referendum kynni að vera heppilegt, til þess að ráða bót á fljótfærni þingmanna á löggjafarmálum. Getur vel verið, að almenn heimild fyrir referendum væri hæfileg takmörkun á einræði þingmanna. Ennfremur er það athugavert, hvort fara eigi svo langt að því er snertir hlutfallskosningar til efri deildar, eins og gert er í þessu frumvarpi. Gæti verið álitamál, hvort ekki væri betra að láta sitja við það sem nú er um skipun efri deildar, að eins að konungkjörnu þingmennirnir séu afnumdir, og í þeirra stað kosnir aðrir 6 menn með hlutfallskosningum. Eg skal ekki segja hvað bezt er í þessu efni, en þetta er eitt af því, sem er íhugunarvert.

Þá hefir enn verið minst á eitt þýðingarmikið atriði í þessu frumvarpi, fjölgun ráðherra, svo að þeir verði þrír í staðinn fyrir einn, eins og nú er. Mér heyrðist hv. þm. hafa á móti þessu, en eg fyrir mitt leyti er því eindregið meðmæltur. Og eg skal benda á það, að þó að kostnaðarauki hljóti að verða nokkur af þessu, þá verður hann ekki eins mikill og í fljótu bragði kann að sýnast. Ef ráðherrar verða þrír, þá verður landritaraembættið að sjálfsögðu lagt niður og sparast þá það fé, sem nú gengur til þess embættis. Þá má og óhætt búast við því, að ráðherraeftirlaun verði til muna færð niður, ef ráðherrum verður fjölgað. En aðalatriðið er þó, að það ríður á að hafa nægilega marga ráðherra, það ríður á því að forustan í málum landsins sé nægilega öflug og að þær skorti ekki vinnukrafta, ekki sízt þar sem svo er háttað eins og hér, að þing kemur ekki saman nema annað hvert ár. Þetta er aðalatriðið og af þessari ástæðu er eg því meðmæltur að ráðherrar verði þrír. Eg held að það sé hæpið, að nokkur einn maður í ráðherrastöðu sé fær um að „gína yfir öllu“, svo að eg noti sömu orð sem féllu hér áðan.

Ennfremur má minnast á takmörkun á frumkvæðisrétti þingmanna til fjárveitinga úr landssjóði. Eg skal játa að hugmyndin er góð, að takmarka frumkvæðisrétt þingmanna í þessu efni. En eg hygg að ennþá sé tæplega fundið hæfilegt form á þessari takmörkun. Og eg er sammála um það, að með fyrirmælum frumv. um þetta er alls ekki komið í veg fyrir „hrossakaup“ og sennilega yrðu þau til lítilla bóta, að því leyti. Hinsvegar er það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, í stað þess sem nú er, afarlangt frá að fullnægja kröfum einstaklinganna. Þessvegna get eg ekki verið með því í þessu formi, þrátt fyrir það að eg aðhyllist hugmyndina í sjálfu sér.