10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Flutningsm. (Pétur Jónsson):

Það hefir verið skýrt frá því við umr. fjárlaganna, hvernig á því stæði, að frv. þetta er komið fram. Fyrir þinginu 1909 lágu fyrir í fjárlagafrv. tillögur frá stjórninni um miklar símalagningar. Mikill meiri hluti þeirra var feldur burtu á þinginu, því að hv. þm. mun hafa þótt efnahagurinn eigi leyfa að leggja síma nema smátt og smátt. Nú í haust lagði landsímastjórinn fyrir stjórnina tillögur um heilsteypt símakerfi, og lagði til, að meiri hluti þess væri nú tekinn upp í fjárlög. En stjórnin treysti sér ekki til, að taka upp meira en svo sem ¼ af því. Það eru nú ýms kauptún og aflapláss, sem enn ekki hafa fengið talsíma, og verða þau því að fara á mis við ýmsan hagnað, sem aðrir hafa af símanum. Þetta er afturför hjá þessum aflaplássum og kauptúnum, því að þau geta ekki kept við þau aflapláss og kauptún, sem þegar hafa fengið talsímakerfi. En þegar ekki er veitt fé á fjárlögunum til símalagninga nema í svo smáum stíl, að margir hljóta með því móti að bíða óratíma og í óvissu, þá virðist það ráðlegt að fá sér lán til þess að koma sem mestu af þessu á í einu, eða öllu því, sem miklu varðar fyrir atvinnuvegi og verzlun. Og það einkum, þegar talsíminn gefur svo miklar tekjur, að þær hrökkva fyrir reksturskostnaðinum og borga jafnvel vexti. Landsímastjórinn hefir gert áætlanir um flestar þessar símalagningar, og hefir það komið í ljós, að áætlanir hans hafa reynst mjög réttar. Það er því undirbúningsins vegna óhætt að leggja út í þetta. Eg vil geta þess, að frv. er bygt á tillögum þeim, sem eg nefndi, frá landsímastjóranum, sem hann hefir lagt fyrir stjórnina. Ætlumst við flutningsmenn til, að lán verði tekið til allra þeirra lína, sem nefndar eru í 3. og 4. gr. frv., og sem ekki er búið að leggja.

Að þessu leyti fer þetta frv. fram á hið sama og landsímastjórinn fór fram á við stjórnina, en sem hún sá sér ekki fært að verða við, sem ekki var von, eins og útlitið var með fjárhaginn. Eg býst við því að sjálfsögðu, þótt þetta mál sé nú allvel undirbúið, að það þurfi þó að ganga til nefndar, og verða athugað þar sem bezt að kostur er á. En eg vil óska þess jafnframt, að sú væntanlega nefnd vildi vinna að þessu máli með sem mestum hraða, sem unt er, þannig að það þó verði vel athugað, einnig í Ed, því að það er alhægt enn að koma því í gegn um þingið, ef menn flýta sér að því. Nú eru stærstu málin komin héðan upp í Ed., og verður þá því betri kostur á því að undirbúa þetta mál rækilega. Þess vegna væri réttast að setja það í nefnd án þess að tala meira um það nú.