10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Þorleifur Jónsson:

Frumv. það, sem hér liggur fyrir, hefir sjálfsagt fengið allgóðan undirbúning, og flutnm. vitanlega reynt að vanda til þess, en þó býst eg við að á því séu ýmsir gallar, og að sínum augum líti þar hver á silfrið. En þar sem þetta er stórmál, þá verður þingið að athuga það rækilega.

Samkvæmt þessu frumv. er símum landsins skift í þrjá flokka. Það getur nú verið, að þetta sé gott og nauðsynlegt, en þó hygg eg, að ýmislegt sé að athuga við þessa flokkaskiftingu. Í fyrsta flokki eru símar, sem landssjóður kostar að öllu leyti, í öðrum flokki þeir, sem hann kostar að nokkru leyti, en með einhverju tillagi frá héruðunum, en í þriðja flokki eru símar, sem eiga að bíða og mæta afgangi, bíða eftir tekjuafgangi frá landsímanum, og koma síðan smátt og smátt móti tillagi annarstaðar frá, en ekki er getið um, hve mikið það á að vera. Þriðji flokkurinn er því bæði halabarnið og olnbogabarnið, því ekki er fyrirsjáanlegur í náinni framtíð sá tekjuaustur upp úr landsímanum, fram yfir allan tilkostnað, að það nægi til þess að leggja alla þessa síma. Þegar tekið er tillit til þess, að af tekjunum á líka að leggja aukaþræði á eldri símalínur, og við vitum, að nú er heimtað stórfé á hverjum fjárlögum og fjáraukalögum til að bæta við þráðum á gömlu símalínunni. Að þessu athuguðu, þá er hægt að sjá, að mörg ár hljóta að líða, áður en tekjuafgangurinn hrekkur til að leggja nýja síma, svo nokkru nemi. Og býst eg því við, að héruðin í 3. flokki megi bíða sæmilegan tíma enn eftir þessum ráðgerðu símum. Mér finst flokkunin vera allmikið öðru vísi í frumvarpinu, en eg hafði búist við. Þegar Forberg hafði verið austan lands í sumar til þess að kynna sér símaleiðir, hafði Austri eftir honum, að hann ætlaðist til að landið tæki að sér aðalsímana, sem eftir eru þar, og að hann teldi sjálfsagt, að síminn frá Fáskrúðsfirði til Hornafjarðar yrði þar með. Blaðið áleit nú að vísu, að hann ætti að víkja í bráð, en síminn milli Vopnafjarðar og Húsavíkur að koma í staðinn. En ef lán á að taka á annað borð, þá ættu báðar þessar símalínur að koma undir eins, og þá ætti að kosta kapps um að koma símanum sem lengst áfram kringum landið. En það virðist ekki vera tilætlunin í þessu frumv. Eg hélt nú, að þessar tvær símalínur, sem eg nefndi áðan, ættu að vera nokkurnveginn jafn réttháar, en það er ekki að sjá, að flutningsm. vilji það. Síminn frá Vopnafirði til Húsavíkur er settur í hásætið, hann á að koma strax og landið að kosta hann að öllu, hann kostar þó ekki neitt smáræði, 85 þús. kr. En síminn frá Fáskrúðsfirði til Hornafj. er bútaður í sundur á miðri leið, á Djúpavogi. Kaflann frá Fáskrúðsfirði til Djúpavogs setja þeir í 2. flokk, auðvitað skör lægra en Húsavíkursímann, því pressa á út úr héraðinu framlag til þessa Djúpavogssíma. En svo setja þeir kaflann frá Djúpavogi til Hornafjarðar í 3. flokk. Þeir setja hann út í horn með öðrum olnbogabörnum, á þann stað stað, sem fyrirsjáanlegt er, að hann fái engan framgang um svo og svo mörg ár að minsta kosti.

Eg skal ekki fara lengra út í þetta, en ekkert skil eg, hvað frumvarpssmiðunum getur gengið til þessa, því ekki er hægt að segja annað, en að kaflarnir ættu að vera báðir jafn réttháir, og nær þessi ráðstöfun því ekki neinni átt.

Auk þessa skal eg taka það fram, að mér finst það hið mesta ranglæti, að sumum héruðum sé gert að skyldu að leggja til símans kringum landið, en sumum ekki. Eg álít, að í þessu símamáli ætti að fylgja sama »principi« og fylgt er í vegalögunum. Landssjóður kostar alla þjóðvegi og aðalpóstleiðir, en héruðin sýsluvegi. Sömu eða líkri reglu ætti að fylgja í símamálunum.

Af því að það hæfir ekki að fara mikið út í einstök atriði, en mér finst hinsvegar málið þannig vaxið, að rækilega þurfi að athuga það, þá vil eg stinga upp á því, að til þess verði skipuð sérstök 5 manna nefnd, ef það á að fá framgang. Mér heyrðist einnig, að hv. flutnm. (P. J.) búast við því, enda finst mér það sjálfsagt.