06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Mér skildist það við 2. umræðu, að það væri almenn skoðun, að málefni þetta væri gott. Menn höfðu það helzt við frv. að athuga, að það hefði átt að vera fram komið fyrir löngu síðan, og það get eg skrifað undir. En betra er seint en aldrei, og betra er nú en síðar, og jafnframt því og eg þakka hv. flutnm. (P.J.) fyrir að hafa komið fram með frv., þá þykir mér það leitt, að það er svo seint fram komið, að lítil von er um, að það geti orðið að lögum á þessu þingi. En þessi undirbúningur málsins ætti þó að vera til þess, að það dragist ekki nema um eitt ár að koma lögunum á. En þegar vonlaust er um, að frumv. geti orðið að lögum nú, þá skiftir minna máli um einstaka brtill., sem fram koma. Þær standa til bóta næst. En því get eg ekki neitað, að þegar eg vissi að það var ákveðið, að loftskeytastöð yrði reist hér í Reykjavík, sem hefði nægt afl til að senda skeyti alla leið til Vesturheims, þá hnykti mér við. Raunar er eg því ekki óvanur, að fáránlegar till. komi fram í þessari hv. deild, og séu jafnvel samþyktar, en þetta er þó með því »grófara«. Málið hefir verið lítið umrætt og meðmæli með ákvæðinu hafa ekki verið studd með neinni áætlun eða ágizkun og enginn veit enn um kostnaðinn. Um loftskeytastöð, sem nær til Grænlands, vita menn aftur á móti, að hún muni kosta c. 60,000 kr. Eg hefi reynt að afla mér upplýsinga um, hvað það muni kosta að setja hér upp stöð, sem geti sent skeyti til meginlands Ameríku. Mér hefir skilist, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir, að minna fari til þess en c. 150,000 kr., og þessi ágizkun er eins áreiðanleg og aðrar. Hér er þá um það að ræða, að auka kostnaðinn við loftskeytin um 90 þús. kr. að minsta kosti. Mér þótti það því undarlegt, að hv. meiri hl., að óhugsuðu máli, hikaði ekki við að greiða þessu atkvæði. Eftir minni skoðun er þess konar meðferð á löggjafar- og fjármálum tæplega forsvaranleg. En eins og eg sagði áðan, þá hefir þetta litla þýðingu nú, því að það er alt útlit fyrir, að málið verði eigi afgreitt fyr en á næsta þingi og þá verða vonandi gætnari menn, sem sitja við stýrið.

Eg verð líka að geta þess, að mér þótti það ekki hyggilegt af fylgismönnum loftskeytasambandsins við Vestmannaeyjar, að fella burtu úr þessu frv. ákvæði um símalagningu á einstöku stöðum, þar sem þeir vilja hafa loftskeyti. Það gat ekki skert þeirra málsstað neitt og hefði að eins orðið dauður bókstafur á sínum tíma, ef loftskeytamálið næði fram að ganga á þessu þingi. Mér þykir það kenna nokkuð mikils ofurkapps, að þola ekki símalínu nefnda á nafn í frumv, sem ekki er orðið að lögum og ekki kemur til framkvæmda í bráðina. Þetta er nokkuð undarlegt, en þó furðar mig ekki eins mikið á því og hinu, að samþykkja út í loftið mjög mikil útgjöld til loftskeyta, án þess að nokkur kostnaðaráætlun liggi fyrir. Eg skal geta þess, þó að oss þyki það ekki sæmandi, að tylla niður tá á Grænlandi, af því að það er dönsk eign, að Englendingar hafa hugsað sér að nota það sem millistöð. En eg get skilið það frá sjónarmiði margra, að þeir geti ekki þjóðarmetnaðarins vegna notað eina þúfu á Grænlandi.

Að lokum skal eg geta þess, viðvíkjandi kostnaðinum við stöð, sem á að geta sent loftskeyti til Vesturheims, að ekki dugar að hafa veikar stengur, heldur verður að hafa turna eða járngrindur og verður það ekki gert fyrir lítið fé.