06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætla mér ekki að lengja umræðurnar mikið. Það er óþarft, þar sem séð er fyrir endann á því, að þetta frv. verður ekki að lögum á þessu þingi.

Annars vildi eg stinga upp á, að friður verði saminn milli Grænlands og Vesturheims með því að taka málið út af dagskrá og ákvæðið síðar orðað: Grænlands eða Vesturheims. Þá er allur vafi farinn.

Eg get þó ekki látið það vera, að víta vin minn háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) fyrir að vera að koma hér með tilvitnanir til Englendinga, að þeir hafi hugsað sér að nota Grænland sem millistöð. Hvaða vit hafa þeir á slíku máli í samanburði við hina alvitru neðri deild alþingis Íslendinga? Hvaða tillit getum við tekið til þessa kotríkis? Höfum við ekki efni á að eyða fé — ólíku meira en Bretar? Við þurfum ekki að miða við neitt, nema sjálfa okkur. Alt annað er fávíslegt. Þetta vona eg, að háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sjái og forðist að koma fram með slíkar tilvitnanir hér í deildinni, sem hljóta að særa og hneyksla hugumstórar og fjölvísar sjálfstæðissálir.