22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

9. mál, prentsmiðjur

Framsögum. meiri hl. (Bjarni Jónsson); Það eru að eins örfá orð um þennan skatt, sem á að leggja á bókahöfunda, því að ekki verður á móti mælt, að þessi skattur kemur aðallega niður á höfundunum. Það kann vel að vera, og er víst alveg rétt, að nauðsyn sé fyrir bókasöfnin að fá sem flestar bækur, en eg get ekki gengið inn á það, að þær eigi að taka úr mínum vasa, eða annara höfunda. Þeir, sem mikið gera að því að semja eða þýða bækur, fá að meðaltali sæmileg ritlaun fyrir aðra hvora bók, og ef bókin er nokkurs virði, fá þeir engin ritlaun, en mega þakka sínum sæla, ef nokkur vill gefa hana út. Og enn þá meira fælir það forleggjarana frá því að gefa út fræðibækur, þegar löggjöfin segir:

»Láttu þá fá bókina ókeypis, sem líklegastir eru til að kaupa hana«. Því skylda menn ekki skraddarann til að gefa 60. hver föt af þeim, sem hann býr til. Því að það mun svara því, að höfundurinn fær ekkert fyrir 60. hverja örk, eða ef til vill 30. hverja örk. Ef söfnin fengju þessar bækur ekki gefins, mundu þau áreiðanlega kaupa þær. Og það er líka sjálfsagt að veita þeim fé til þess að afla sér bóka. Til þess er eg jafnfús og eg er fús á að afnema hinn ósanngjarna skatt, sem lagður er á bókahöfunda. Menn mega alls ekki líta svo á, að við, sem þetta viljum afnema, séum að vinna nokkuð á móti söfnunum, heldur er það til þess gert, að framlögin lendi þar, sem þau eiga að lenda, á landssjóði, en ekki einstökum mönnum. Eg gæti, af því að eg er vanur þýðari, líklega afkastað 60 örkum á ári, og fengið um 20 kr. fyrir örkina. Menn geta reiknað út, hve miklar árstekjur það yrðu, þegar auk annara skatta, sem eg sem borgari verð að greiða, yrði lagður á mig sá aukaskattur, að gefa 30. hverja örk. Það er þannig lögð sekt á mig fyrir að gera góða þýðingu á góðri bók, og eg yrði ennþá ver úti, ef bókin væri fræðibók. Þá fengi eg líklega engin ritlaun, ef bókin væri ekki sögulegs efnis, en t. d. um heimspeki. Svona er þetta nú ranglátt. En gagnvart þeim mönnum úr fjórðungum landsins, sem hér sitja, vil eg aftur taka það fram, að eg er ekki að reyna að berjast á móti söfnunum, en tel sjálfsagt, að landssjóður veiti þeim fé til bókakaupa.

Eg skal svo ekki fjölyrða um þetta, en að eins svara háttv. framsm. minni hl. (J. Ól.) nokkrum orðum. Það er rétt hermt hjá honum, að eg lít svo á, að land í þessu sambandi þýði sama og ríki. Eg gæti líka vel gengið inn á, að það stæði óbreytt, ef það á opinberum skjölum væri þýtt þannig á útlend mál, að skýrt kæmi í ljós, hvað eg meina með því, og tilsvarandi útlend nöfn jafnframt þýdd eftir sömu reglu á íslenzku, t. d. landsjóður en ekki ríkissjóður Danmerkur. Ef því væri svo hagað skyldi eg gjarnan ganga frá nafnbreytingunum, en það vil eg skýrt fá fram, að við skoðum okkur ekki sem hluta, heldur sem heild, eina þjóð og eitt ríki.