22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

9. mál, prentsmiðjur

Jón Þorkelsson:

Eg vil geta þess, að þótt eg hafi skrifað undir nefndarálit þetta, er eg samt ekki fyllilega samþykkur því, að tekinn verði sá réttur af fjórðungsbókasöfnunum og Ísafjarðarsafninu, sem þau hafa áður haft til þess að fá ókeypis bækur og tímarit, sem gefin eru út hér á Íslandi. Eg lít svo á, að skattur þessi sé ekki mjög tilfinnanlegur fyrir bókaútgefendur, en kemur hinsvegar bókasöfnunum að miklum notum. En ef líkur eru til þess, að fjárveitingarvaldið sýni sig liðugt um fjárstyrk til safnanna fyrir þessi réttindi, þá get eg við þessa umræðu verið með því, að feld sé burtu 3. málsgrein 2. gr.

Eg get ekki hrósað háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) fyrir það, að hann standi vel við orð sín. Hann var í nefndinni samþykkur því, að nafn landsbókasafnsins skyldi eftirleiðis vera þjóðbókasafn, en nú er hann að tala um það eins og einhverja stofnun, sem hætt sé við að enginn viti, hvort sé til. Það er eins og þegar skift er um bæjarnafn, að jörðin væri þá ekki til, þegar hún er nefnd með nýja nafninn. En það þýðir ekki mikið að vera að þrátta um þetta, ef þingmaðurinn hvorki skilur né vill skilja. Háttv. þm. segist meina það sama og við. Og ef honum er það alvara, að í orðinu felist það sama og í orðinu National library, eða Nationalbiblotek, hvers vegna vill hann þá ekki nota hið skýlausara orðið, sem tekur af allan vafa? Þjóðbókasafn er einmitt hið skýlausa nafn. Það má þrátta um orðið »land«, hvort í því felist sama merking og »national«. Það getur bæði þýtt þjóð, eða ríki, landshluta, hérað og sveit, en orðið þjóð getur ekki falið í sér nema það af þessu, sem þingmaðurinn þykist vilja og við hinir nefndarmennirnir viljum. »Þjóð« hefir að eins eina ákveðna merkingu. Eg þarf hér ekki að fara fleirum orðum um þessa nafnbreytingu. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir gert það svo rækilega, og fært svo skýr og góð rök fyrir okkar málstað, að óþarft er að fara meira út í það. Brtill. okkar um, að sektirnar renni í háskólasjóð — ef þær eiga ekki að renna í landssjóð — virðist svo sanngjörn, að eg býst við að flestir fallist á hana. Sjóður sá ætti að vaxa til sóma og styrks jafnvirðulegri stofnun, sem við ætlum að fara að koma upp, og ætti að verða fátækum, ungum efnismönnum til gagns og menta. Það liggur fjær, að fé þetta renni til landsbókasafnsins. Það er stofnun, sem af landssjóði hefir sitt ákveðna fé, en háskólasjóðurinn er nauðsynlegur velgerðasjóður. Ef féð rennur ekki í landssjóð, þá vil eg leggja mikla áherzlu á, að það renni einmitt í þennan sjóð, sem þegar hefir safnað verið til nokkurt fé, sem nú er á vöxtum.