22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

9. mál, prentsmiðjur

Björn Jónsson:

Eg get ekki fallist á þessa tillögu um að breyta nafninu landsbókasafn í þjóðbókasafn og landsskjalasafn í þjóðskjalasafn. Hér á landi er enginn sá, er misskilji heitin. En það er hinn mesti hégómi að eltast við, hvernig eigi að þýða heitin á útlendar tungur og leggja lögbann við, hversu þýða beri; mér finst menn geti látið sér í litlu rúmi liggja, hverjum nöfnum klínt er á þessi orð í útlendum tungum.

Um bókagjafirnar til safnanna vil eg geta þess, af því eg á að heita bókaútgefandi, þótt ekki kunni því að verða tekið mikið mark á orðum mínum, að það er rangur og ranglátur skattur, sem þar með er lagður á bókaútgefendur. Eftir sömu reglu ætti að lögbjóða leikhúsum að gefa aðgöngumiða svo og svo mörgum, sem eiga ekki hægt með að kaupa þá, eða þá tíma því ekki, eða þá að tiltölu við það sem selst. Eg geri ekki mikið úr því, að þessi söfn séu til að menta þjóðina. Eg mundi, að eg ætla, hafa lagt á móti þessum skatti, jafnt fyrir því; þótt eg hefði ekki verið bókaútgefandi.