22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

9. mál, prentsmiðjur

Jón Þorkelsson:

Mér fanst háttv. þm. Barð. (B. J.) misskilja, hvern tilgang vér hefðum með því að leggja til breyting á nöfnum safnanna. Það efast enginn um, að hérlendis muni engir misskilja þau nöfn, sem að upphafi byrja á land. Það er einmitt sú hliðin, sem veit út á við, sem hér varðar mestu, og því varð það sammæli í nefndinni, að koma fram með þessar breytingar, og þar með skora á stjórnina að þýða lögin svo, að skýrt kæmi fram, að kent væri við þjóð en ekki hérað. Það á að fyrirbyggja það, að vér séum skoðaðir sem hérað úr Danmörku, og stofnanir vorar sem héraðastofnanir þar. Þetta veit eg, að hv. þm. skilur manna bezt, ef hann athugar það.

Það er verið að benda mér á, að landfógeti hafi verið hér á landi. Eg skal fræða sessunaut minn um það, að það embætti var einmitt stofnað um það bil, er innlimuninni var dembt yfir þetta land, og það skoðað sem hérað eða »Provinds« úr Danmörku.