04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

9. mál, prentsmiðjur

Jón Magnússon:

Eg hefi ekki orðið þess var, að þetta frumvarp hafi verið svo þrautrætt, sem hv. framsm. sagði.

Eg vil fyrst drepa á það, að það getur verið athugavert, að vera með þessa sífeldu títuprjónastingi í Dani, og öðruvísi en svo, get eg ekki skoðað þetta frumvarp.

Það er kunnugt, að bókasöfnin í Danmörku hafa hingað til fengið 3 eintök af íslenzkum bókum, annað safnið 2, en hitt 1. Það má nú vera, að þetta sé of mikið, en að taka þetta burtu svona alveg fyrirvaralaust, finst mér dálítið óviðkunnanlegt. Eg skal nú samt ekki tala frekar um það; það mun einmitt vera það, sem meiri hl. háttv. deildar þykir kostur á frumvarpinu. En eg vil benda á það, að það er undarlegt, að fara nú að þrengja að prentsmiðjuiðnaðinum, svo að hann verði ekki frjáls atvinnugrein, og ósanngjarnt að leggja nú nýja skatta á hann, þar sem menn hafa altaf verið að íþyngja honum meira og meira undanfarið. Eg skil t. d. ekki, hvers vegna prentsmiðjurnar eiga að fara að gefa skjalasafninu 1 eintak af hverri bók á skrifpappír, þegar landsbókasafnið, sem er í sama húsinu, á að fá 2. Þetta er á engum rökum bygt.

Svo er annað atriði. Hvers vegna á að fara að hegna erlendum mönnum fyrir það, að gefa út bækur á íslenzku? Hví má ekki selja þær hér í landi nema áður sé búið að gefa landsbókasafninu eitt eintak af þeim? Hvernig ímynda menn sér, að lögin geti talist heiðarleg eða sæmileg, þegar svona afskapleg ákvæði eru í þeim. Nú er t. d. gefin úr dýr útgáfa af einhverjum fornritum vorum í Svíþjóð, og send hingað, eða auglýst hér. Hvað þá? Þá kemur auglýsing í Lögbirtingablaðinu um það, að útgáfuréttinum sé glatað, og ritið gert upptækt. Er nú nokkurt vit í öðru eins og þessu? Þetta er ekkert annað en söluskattur. Eg skil ekkert í því, hvernig þetta hefir komið upp í heila nefndarmanna, og eg verð að segja það, að það væri sæmra að fella þetta, því að annað væri til hreinustu minnkunar.