04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

9. mál, prentsmiðjur

Framsögum. minni hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Mig hálfkynjaði á ræðu háttv. þm. Vestm. (J. M.). Hann hafði ekkert út á þetta að setja síðast og flest af því sem hann sagði var misskilningur. Hann talaði um, að hér væri verið að íþyngja prentiðnaðinum, en það er þvert á móti. Hér er verið að létta á honum. Og að þetta ætti ekki að verða frjáls atvinnuvegur. Hann er einmitt ekki frjáls, eins og nú stendur, nema í kauptúnunum, en samkvæmt þessu frv. á hann að verða það alstaðar. Þetta er því alveg öfugt. Hann fáraðist um að landsskjalasafnið ætti að fá eitt eintak. Það fær það nú af öllum blöðum, svo að þetta er ekki nýmæli. Hitt er annað mál, hvort beint er ástæða til þessa eða ekki, en þetta er í öllu falli til þess, að vinur okkar landsskjalarinn fái ókeypis eitt eintak af blöðunum til lesturs. En svo kemur þetta heldur ekki niður á prentsmiðjunum, heldur á útgefendunum, því að salan spillist af því að gefa þessi eintök, en prentsmiðjurnar fá alt hið sama frá útgefendunum. Þá þótti honum hér kenna títuprjónastingja, en því verð eg að afneita skýrt og skorinort. Eg hefi ekki verið mikið kendur við þá í þessa átt, en milli 1880 og 1890 kom eg fram með till. í þessa átt í prentsmiðjulagafrumvarpinu. En féll þá frá henni eftir bendingu landshöfðingja, til að spilla eigi staðfestingu laganna; en þá áttum vér danskan ráðgjafa.

Það hefir lengi vakað fyrir mér og öðrum, að þessar bókagjafir væru óþarfi. Danir eru efnuð þjóð og geta vel keypt bækur okkar, ef þeir vilja. Við kaupum þeirra bækur og það er engin ástæða til þess, að fátækari þjóðin sé þannig að gefa hinni ríkari endurgjaldslaust. Þeir hljóta að sjá, að það er ósanngjarnt að skattskylda okkur til þeirra bókasafna, án þess að okkar bókasöfn hafi nokkurn rétt til nokkurs, sem út kemur í Danmörku. Ef vér fengjum hlynnindi í staðinn handa voru safni, væri alt öðru máli að gegna.

Þá þótti háttv. þm. ótækt, að hér er áskilið að ekki megi selja hér á landi bækur, sem eru gefnar út annarsstaðar, nema gefið sé eitt eintak af þeim til landsbókasafnsins. Við höfum veitt íslenzkum höfundum erlendis eignarrétt á sömdu máli, og það er vernd á honum, og þá látum við varða missi þessa réttar, ef landsbókasafnið fær ekki sitt eintak. Þetta viðgengst í Bandaríkjunum og Kanada. Það er t. d. skilyrði fyrir þessum rétti, að hafa kvittun frá Kongressbókasafninu (í Kanada frá innanríkisskrifstofunni) fyrir einu eintaki af hverri bók. Þegar kvittun er fengin þá er um leið fenginn prentrétturinn og eignarrétturinn. Það er engin ósanngirni, þótt landið áskilji sér 1 eintak. Það er ekki annað en endurgjald fyrir veizlu og varðveizlu á rithöfundaréttinum.

Háttv. þm. hefir ekki íhugað málið nógu rækilega og eg skil ekki annað en að hann sjái við nánari athugun, að þetta er réttmætt.