26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

75. mál, stjórnarskrármálið

Sigurður Hjörleifsson:

Eg á hér litla brtill. á þingsk. 753 ásamt með háttv. þm. Strandamanna. Það er viðaukatillaga við brtill. þær sem bornar eru fram af nefndinni.

Eins og háttv. þingdeildarmenn kannast við, voru í þingbyrjun borin fram 2 frv. til breytingar á stjórnarskipunarlögum vorum. Í öðru þeirri var gert ráð fyrir því, að kosningarrétturinn yrði almennur fyrir konur og karla, sem náð hefðu lögaldri, og það eins þótt hann hefði verið bundinn við 21 árs aldur. Nefnd sú, sem skipuð var í málið í þessari háttv. deild, hefir gert hér á allmiklar breytingar. Hún gerir meðal annars ráð fyrir að bægja hjúum og vistskyldu fólki frá kosningarrétti. Mönnum þótti það í of stórt ráðist að veita í einu svo mörgu fólki kosningarrétt, en þótti hins vegar ekki tiltækilegt að færa áfram aldurstakmarkið og þess vegna var hjúunum og vistskyldu fólki slept úr. Eg er sannfærður um það, að þetta spor sé viðunanlegt, eins og háttv. samnefndarmenn mínir leggja til, því að það er mjög varhugavert að auka kosningarréttinn svo mjög í einu. En það getur varla hjá því farið að sumum kunni að þykja, sem í þessu liggi einhver lítilsvirðing við þá stétt, sem verið er að bægja frá, hjúastétt landsins, og er þá skylt að bæta úr því. Það má búast við því, að ekki líði á löngu áður mönnum sýnist rétt að veita hjúum kosningarrétt, og til þess að ekki þurfi til þess stjórnarskrárbreytingu, höfum við farið hér fram á að veita megi hann með einföldum lögum. Eg vil mælast til þess, að háttv. forseti skifti þessari tillögu í tvent við atkvæðagreiðsluna og beri upp sérstaklega þessa tillögu, því það getur vel verið að menn vilji samþykkja fyrri liðinn, en ekki þann síðari, sem hljóðar svo; „Áður en konungsstaðfestingar er leitað á þeim lögum, er þó skylt að leggja þau fyrir alþingiskjósendur um land alt, til samþyktar eða synjunar“. Okkur þykir lítil ástæða til, að ef stjórnin og meiri hluti þings hafa komið sér saman um að veita hjúum þennan rétt, þá þurfi til þess breytingu á stjórnarskránni, þingrof og nýjar kosningar. Okkur virtist mega gera það á miklu einfaldari hátt, með einföldum lögum. Um síðari liðinn er mér ekkert kappsmál, hvort hann verður samþyktur eða ekki. Þó mér reyndar finnist að í honum sé trygging sú, sem sé, að hjúunum verði ekki veittur kosningarréttur nema það sé vilji kjósendanna. Það er sérstök ástæða til að fara ekki ver með hjúastéttina en aðrar stéttir, af því að hér er vistarskylda, sem ekki er víðast hvar annarstaðar. Hinsvegar er ekki mikil hætta að veita þeim kosningarrétt. Hjúin mundu fremur verða til að mynda stöðvunarafl í landinu en aðrar stéttir.

Háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.) hefir talað fyrir brtill. þeim sem við eigum sameiginlegar og gert svo glögga grein fyrir þeim, að engin veruleg ástæða er til að ræða frekara um þær. Í þeim felst að minni skoðun meiri stöðvun, heldur en er í frumvarpinu, eins og það var samþykt í háttv. neðri deild. Eg vil sérstaklega benda á, að samkvæmt frumvarpinu á að kjósa 5 þingmenn til efri deildar 3ja hvert ár. Eg get ekki skilið að nokkur maður, sem lætur sér ant um að eitthvert stöðvunarafl sé í þinginu, geti fallist á þessa tillögu. Þetta mundi leiða til þess, að alt of mikið af því pólitíska afli þjóðarinnar lenti í kosningum og sífeldri baráttu um völdin, í stað góðrar og heillavænlegrar umhugsunar um undirbúning á hinum þýðingarmiklu málum þjóðarinnar. Þess vegna verð eg að telja þetta fyrirkomulag mjög óheppilegt, því ofan á það að kjósa á 3. hvert ár til efri deildar bætist það, að líka á að kjósa til neðri deildar 6. hvert ár, svo það má þá segja, að við yrðum einlægt að kjósa. Þessu þarf að breyta, hvert ráð svo sem tekið er. Það má telja víst, að ekki tjái að fara í þá áttina að lengja kjörtíma þeirra, sem kosnir eru hlutfallskosningu, og láta þá alla vera kosna til 12 ára; það mun ekki ná fram að ganga hér á þinginu. Það er hætt við að neðri deild muni þá breyta til aftur í radíkala átt; þess vegna álít eg ráðlegast að taka þessa aðferð, sem við fórum fram á með brtill. okkar, og tel eg þá þessa deild stilla vel til hófs.

Þá vildi eg minnast lítið eitt á eina af þeim tillögum, sem fram hafa komið frá nefndinni, sem sé þá, að með sérstöku lagaboði megi kveða svo á að lagafrumvörpum megi skjóta til leynilegrar atkvæðagreiðslu kjósendanna. Þetta sem hér er um að ræða er hið svokallaða referendum. Eg vil leyfa mér að benda á það, að með þessu er hér ekki verið að lögleiða málskotsrétt, heldur er að eins leyft að setja lög um það síðar, þegar þjóð og þing hefir vandlega íhugað þetta mál. Auk þess eru takmarkanir settar á því, hvaða málum megi skjóta til þjóðarinnar. Það eru undanskilin fjárlög og fjáraukalög og lög sem eiga að öðlast gildi vissum tíma eftir að þau eru samþykt á þingi. Það er því algerlega á þingsins valdi að takmarka og hafa í hendi sér, hvaða lögum geti orðið skotið til þjóðarinnar. Það var sagt hér áðan, eða því kastað fram, að referendum væri orðið úrelt í heiminum. Margt hefi eg heyrt sagt um referendum, en aldrei þetta fyr. Eg vil benda á, að þessi réttur, alþýðuatkvæði, skiftist í tvent: Málskotsrétt, eða rétt ákveðinnar tölu kjósenda eða ákveðinnar tölu þingmanna til að heimta það að lögum, að lagafrumvörpum sé skotið til kjósenda til samþyktar eða synjunar. Hitt er frumkvæðisréttur, eða sá réttur, að ákveðin tala kjósenda getur heimtað, að löggjafarþingið semji og samþykki lög um eitthvert tiltekið málefni.

Úrelt getur referendum ekki kallast af því, að það er tiltölulega nýtt í heiminum og alt af að aukast. Eg heyrði það sagt í neðri deild um daginn, að það hefði þekst langt neðan úr öldum í Sviss. Þetta er ekki rétt. Það er ekki nema rúmra 100 ára gamalt þar í landi, og var fyrst sérmál hvers einstaks fylkis. Árið 1848 er það tekið í stjórnarlög Svisslands og árið 1874 er ákveðið að 30 þús. manna skuli hafa málskotsrétt. Um stjórnarskrána er það ákveðið og mun hafa verið alla götu frá 1848, að breytingar á henni skulu bornar undir atkvæði þjóðarinnar Frumkvæðisrétturinn virðist heldur ekki úreltur. Hann var tekinn upp í Svisslandi 1891 og hefir gefist vel. Þar geta 50 þús. kjósendur krafist þess, að tiltekin, ákveðin lög skuli borin upp til samþyktar eða synjunar. Þegar Svisslendingar bættu þessum rétti við sig, var það gert eftir þjóðaratkvæði og voru 182 þús. atkv. með því, en 120 þús. á móti. Mikill meiri hluti er þá með því ekki einungis að halda þeim rétti, sem áður var, heldur að bæta við sig nýjum rétti miklu víðtækari en hinum.

Líti maður til Bandaríkjanna í Norður-Ameríku, á ekki síður illa við að segja, að referendum sé orðið úrelt, því á síðustu áratugum hafa orðið stórkostlegar breytingar einmitt í þessa átt. Sex ríkin hafa nýlega lögtekið referendum í öllum málum, þar á meðal í fjármálum. Þessi sex ríki eru: Suður-Dakota 1889, Utah 1895, Oregon 1899, Nevada 1901, Montana 1905, og Oklahama 1907. Í öllum þessum ríkjum er bæði málskotsréttur og frumkvæðisréttur, nema í Nevada. Þar er að eins málskotsréttur. Árið 1895 var tekið í lög í ríkinu Delaware ráðgefandi referendum Og það er til meira blóð í kúnni. Fjórtán ríkin í Bandaríkjunum hafa sett það í stjórnarlög sín, að ríkislán megi ekki taka nema bera það fyrst undir kjósendurna, og meðal þessara 14 ríkja auðugasta og voldugasta ríkið, New York. En það sem er þýðingarmest og hér skiftir mestu máli er það, að af 46 ríkjum Bandaríkjanna hafa 45 lögleitt málsskotsrétt um stjórnarskrá sína. Eg á hér auðvitað við stjórnarskrá hinna einstöku ríkja; stjórnarskrá alríkisins hefir, sem kunnugt er, ekki verið breytt síðan 1789. Hvert ríkið eftir annað hefir verið að taka upp þenna rétt.

Annars er þetta mál mikið rætt í heiminum. Nú sem stendur er mikið deilt um það á Englandi út af breytingu þeirri sem þar er í ráði að gerð verði á stjórnarskipun landsins. Sama er að segja um Noreg. Í Danmörku hefir frjálslyndi eða radikali flokkurinn haft málskotsrétt á málaskrá sinni um nokkurn tíma. Ekki alls fyrir löngu, fyrir eitthvað 2—3 árum, bar þessi flokkur fram tillögur í ríkisdeginum til breytingar á grundvallarlögum ríkisins og upp í þessar tillögur var málskotsrétturinn tekinn. Eftir þeim tillögum voru sniðnar tillögur þær sem háttv. 1. þm. Skagf. bar fram í neðri deild um daginn. Eg vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að í Danmörku var gert ráð fyrir að 50 þús. kjósendur af 1 milj. 300 þús. hefðu málskotsrétt.

Það er því ekkert vafamál, að þetta sem hér er farið fram á í br.till. nefndarinnar um referendum, er ekki neitt nýtt fyrirkomulag, heldur finst það þvert á móti mjög víða. Og alstaðar þar sem það er haft er það látið ná til stjórnarskrárinnar; enda er það ekki nema eðlilegt, því það sýnist vera harla ástæðulítið að rjúfa þing vegna breytinga á stjórnarskránni. Mér er óskiljanlegt hvaða áhrif þessi blessuð þingrof hafa í sambandi við stjórnarskrána. Hugsum okkur t. d. þær kosningar, sem að líkindum fara fram bráðlega. Halda menn, að þær muni snúast um stjórnarskrána, eða að menn fari að athuga hvert atriði í stjórnarskrárfrumvarpi því, sem væntanlega verður afgreitt frá þessu þingi? Nei, langt í frá. Það verður talað um alt annað. Það verða alt önnur mál, sem ráða úrslitunum. Og það er einmitt sönnun þess, hve réttlátt það er, að breytingar á stjórnarskránni séu bornar upp sérstaklega, og hvað það er nauðsynlegt að henni sé haldið fyrir utan og ofan þann aur sem oftast er samfara kosningabaráttunni. Þessvegna er mjög eðlilegt að málskotsréttar sé einmitt neytt um stjórnarskrána.

Enn er það, að referendum verður því nauðsynlegra, sem meira vit, þekking og frjálslyndi er utan þinganna — og það vonum við að fari stöðugt vaxandi — svo að löggjöfin geti orðið fyrir áhrifum úr þeirri átt, því að sá kosningarréttur, sem þingræðið byggist á, bendir ekki til þess, að nein trygging sé fyrir því, að vitið og þekkingin sé mest innan þinganna.

Þingið hefir það mjög í hendi sér og getur komið undan þeim málum, sem því þykir mestu um varða.

En það er líka til nokkuð, sem heitir hið þögula vald og í þessum rétti felst mikið af hinu þögula valdi. Það vald þora menn ekki að brjóta.

Löggjafarnir hika sér við að samþykkja þau lög, sem þeir búast við að séu á móti vilja þjóðarinnar. Þessvegna felst í þessu siðferðislegt aðhald við löggjöfina.

Eg hefi ekki haft langan tíma til að athuga þessi efni, en eg hefi heyrt menn tala margt á þessu þingi og margt undarlegt hefir komið fyrir.

Mér dettur í hug í þessu sambandi það sem sagt er um Pythagóras, gríska heimspekinginn, að er hann fann mjög merkilega setningu, hafi hann fært guðunum fórnir með 100 nauta blóti, en síðan hafi naut jafnan baulað, er nýr sannleikur var leiddur í ljós, og mér hefir oft dottið þetta í hug hér hvort nautin hans Pythagorasar væru farin að baula.

Eg mótmæli því að þetta mál hafi verið flokksmál.

Eg veit ekki betur en að báðir fyrverandi ráðherrar hafi verið andvígir ráðherra fjölguninni, og segi eg þeim það ekki til lasts, þó eg fyrir mitt leyti vilji að ráðherrum sé fjölgað.

Framsögumaður heimastjórnarmanna í neðri deild er mjög ákveðinn talsmaður þess að fjölga ráðherrum, og hefir hann skrifað um það blaðagreinir. Hvort fleiri eru í öðrum flokknum en hinum, sem eru þessu máli fylgjandi, veit eg ekki, en óhætt mun að fullyrða að meiri hluti þingsins muni vera með fjölguninni.

Það er á allan hátt rangt að kenna einstökum flokki tillöguna, og er þetta ekki sagt til að verja neinn flokk, þótt eg teldi hverjum flokki sæmd að því að fylgja þessu fram.