04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

9. mál, prentsmiðjur

Framsögum. minni hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) taldi mein að því, að pólitík hefði blandast í frumv. þetta. En eg neita því, að frá nefndarinnar hálfu hafi nokkur pólitík blandast í frumvarp þetta, og það sem háttv. þm.

N.-Þing. (B. Sv.) sagði, er nefndinni óviðkomandi, enda er hann alls ekki í nefndinni. Í nefndinni hefir enginn látið neitt slíkt í ljós, og þess vegna er það ranglátt, að merja lífið úr góðu frumv., af því það er ef til vill hægt að ímynda sér í því pólitíska þýðingu. Eg bar á þinginu 1886 fram frumv. svipað þessu, og þá var það felt, af því menn sögðu, að það væri pólitískt.

En það er svo langt frá því, að í þessu frumvarpi felist nokkur óvildarhugur til Dana, að enginn danskur maður mun taka það sem óvildarmerki, þótt íslenzkir höfundar séu ekki skyldaðir með lögum til að gefa þeim bækur. Þeir hljóta að sjá, að hér er ekki verið að gera annað en það sem er réttlátt og rétt.

Sami háttv. þm. talaði um, að nauðsynlegt væri, að hafa íslenzkar bækur geymdar á 2 stöðum til tryggingar, ef annar brynni. Þetta er að vísu mikil forsjálni, en forsjálni sem hvergi annarsstaðar í heiminum á sér stað. Hvergi þar sem eg hefi tilspurt, er nema einu safni gert að skyldu að kaupa, eða réttur gefinn til að fá bækur, sem út koma og geyma þær. Þannig er það t. d. í Noregi, Danmörku, Englandi og Bandaríkjunum. Menn vita sem er, að mörg söfn um víða veröld kaupa alt, sem út kemur af nýtilegum bókum. En hér eiga höfundamir að blæða.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.), hélt að það væri mun nær, að afnema eintökin til fjórðungsbókasafnanna. Nefndin lagði það til við 2. umr., að þau yrði afnumin, en deildin feldi það. Það væri því nokkuð einkennilegt, ef háttv. deild færi nú að fella frumvarpið fyrir þá sök, að fjórðungsbókasöfnin fengju bækur. Þá hefir það verið fært sem ástæða fyrir því, að senda Dönum gjafabækur þessar, að það væru svo margir Íslendingar í Kaupmannahöfn. En eru ekki líka margir danskir menn hér og aðrir útlendingar, sem nota okkar söfn? Eftir sama mælikvarða ætti þá að skattskylda þau lönd, sem þeir eru frá, til að senda hingað allar þær bækur, sem þar koma út, endurgjaldslaust.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) mintist réttilega á það, að Cornell háskóli í Íþöku í Bandaríkjunum, kaupir árlega hvert pút og plagg, sem út kemur af bókum á þessu landi. Þar eru því allar íslenzkar bækur til, en þær eru keyptar en ekki sníktar hjá íslenzkum höfundum. Það, að nefndin hefir lagt til, að bönnuð væri hér á landi sala á íslenzkum bókum, sem gefnar eru út í útlöndum, er á engan hátt af því sprottið, að nefndin vilji meina mönnum að fá þær bækur — hver sem vill getur pantað þær —, en það finst oss ástæðulaust, að verðlauna menn fyrir að láta prenta bækur sínar í útlöndum, t. d. ef eg gæfi út, annaðhvort í Danmörku eða Englandi, rit, sem kostaði 20 kr., þá næmi andvirði þeirra eintaka, sem til bókasafnanna hér ættu að fara, ef bókin hefði verið prentuð hér, 146 kr., eða meira en mismunur á prentkostnaði og fragt undir alt upplagið mundi verða við að flytja það hingað heim. Hins vegar mun sá útgefandi, sem vill fá markað hér fyrir bækur sínar, ekki telja það eftir, ef hann lætur prenta bókina annarsstaðar, að gefa landsbókasafninu einu eitt eintak.

Þá eru blöðin. Það er enganveginn ofþung kvöð á þau, þótt þau láti landsbókasafninu í té eitt eintak á skrifpappír. Sá pappír, sem blöðin nú eru prentuð á, er orðinn að dusti eftir nokkra áratugi. Viðvíkjandi því, að ákvæðin um það, að skila því sem prentað er, séu skerpt, skal eg geta þess, að Dagskrárprentsmiðja hefir enn eigi skilað nærri öllu, sem þar var prentað, og hefir það þó verið kært aftur og aftur, en því eigi verið sint. Það er því full nauðsyn á þessu. Mér finst það mjög svo lítilmannlegt að hræðast óvild Dana, þótt við hættum að senda þeim þessar gjafabækur. Danir mundu kunna því illa, ef þeir væru skyldaðir til að gefa hingað þótt ekki væri nema eitt eintak af hverju riti, sem þar kemur út. Eg vonast til að frumvarp þetta verði ekki drepið nú við 3. umræðu, því þær breytingar, sem á því hafa verið gerðar síðan við 2. umr., eru þarfar.

Viðvíkjandi því, að söfnin geti skift á bókum, sem gefnar eru út af almannafé, þá er það ekki nema sjálfsagt og skylt. Margar aðrar þjóðir senda oss slíkar bækur, og það er því að eins að gjalda líku líkt að senda þeim aftur það, sem hér er gefið út af slíkum bókum.

Þetta fellur alls eigi á einstaka menn, en snertir að eins það, sem gefið er út af félögum með landssjóðsstyrk eða landssjóði eða á almannakostnað. Það er alls ekki annað en gjald fyrir gjöf, og sýnir að eins kurteisi, sem hver þjóð á að sýna annari.