18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

9. mál, prentsmiðjur

Framsm. minni hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg skil ekki hvað hv. þm. Vestm. (J. M) gengur til þess, að vilja nú fara að leggja þungan skatt á bókaútgefendur hér á landi fram yfir það sem nú á sér stað, sem sé þessi 4 eintök til landsbókasafnsins. Það er rán, að féfletta svo útgefendur að raunalausu, og eg er hlessa á honum, jafnsanngjörnum manni, að koma fram með þetta, þar sem hann veit, hve örðugt er að koma á prent bókum hér á landi. Þetta er að þrengja að bókmentum landsins, og það er ástæðulaust, því að landssjóður er fullfær um að kaupa bækurnar, ef hann vill. Það er nóg gert til þess að spilla bókamarkaðinum með söfnunum, þótt menn séu ekki neyddir til að gefa þeim bækurnar líka.