18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

9. mál, prentsmiðjur

Jón Magnússon:

Það er ekki meining mín, að íþyngja rithöfundum eða útgefendum frá því sem orðið er. En eg verð að telja það mikils um vert, að landsbókasafnið eigi nokkur eintök til þess að geta skift við útlend söfn. Eins og eg áður hefi sagt, er eg hlyntur því að létta kvöðinni um að gefa fjórðungsbókasöfnunum og landsskjalasafninu af prentsmiðjunum. En eg verð að leggja mikla áherzlu á það, að landsbókasafnið hafi 2 eða 3 eintök til bókaskifta við erlend söfn, hvort sem þau eru nú dönsk, ensk, frönsk eða hvað sem er. Hitt tel eg ná skamt, að láta þetta gilda einungis um þau rit, er styrkt eru af almannafé.