18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

9. mál, prentsmiðjur

Framsm. minni hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg get ekki verið samdóma háttv. þm. Vestm. (J. M.). Hann á við það, að eintök, sem heimtuð eru ókeypis verði ekki fleiri en áður. En þetta er tilfinnanleg íþynging alt um það. Þau eintök, sem fara til útlanda, spilla ekki sölumarkaði á íslenzkum bókum, heldur hin, sem fara á söfnin. Eg get ekki betur séð, en að tilganginum sé náð með því að veita styrk á fjárlögunum til landsbókasafnsins til skiftibóka, en 4 eintök hrykkju ekki til þess, það þyrfti fleiri, einmitt af þeim bókum, sem nokkur slægur er í, og það er rétt, að landssjóður beri þann kostnað, eg gæti hugsað að það yrðu svona 10—20 eintök, en hávaði bókanna verður aldrei neins metinn til skifta, svo að það er að fara á mis við tilganginn, ef þetta á að ganga jafnt yfir allar bækur, — alveg óþarft um fjölda bóka.

Eg vil því mæla sterklega með því, að 1. og 2. brtill. á þgskj. 649 verði feldar, og eg þykist vita, að þingið sé svo sanngjarnt, að veita styrk til bókakaupanna.

Svo er annað. Eg hefi orðið þess var, að á síðustu dögum hefir fregnin um frv. þetta borist til Danmerkur, og útgefendur þar eru að hafa samtök um að senda landsbókasafninu bókaskrár sínar, til þess það geti valið úr bækur, sem þeir þá senda því ókeypis gegn skiftibókum til dönsku safnanna tveggja, að mér skilst. Þetta er rétt, og þannig ætti bóksalafélagið hér að hegða sér, og það ætti að vera hægt að komast að svona skiftum í fleiri löndum, t. d. Noregi og Svíþjóð.

Það er alt annað en að láta ókeypis fjölda eintaka af hendi til safnanna hér á landi. En þessi tvö eintök, sem landsbókasafnið hefir, hrökkva ekkert, þau verða eins og krækiber í tunnu. Bezt væri að fela stjórninni þetta alt saman. Annars skal eg geta þess, að bækur, sem styrktar eru af opinberu fé, eru ekki svo fáar. Það eru t. d. þingtíðindi, landsreikningar, stjórnartíðindi, Þjóðvinafélags-, Bókmentafél.- og Sögufélagsbækur o. s. frv. Auk þess er fjöldi annara bóka styrktur af landsfé, sem opt og tíðum eru einmitt beztu bækurnar og líklegastar til bókaskifta.