29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

153. mál, prentsmiðjur

Flutningsm. (Jón Þorkelsson):

Tillaga þessi er hér framkomin vegna þess, að frv. til laga um prentsmiðjur, sem samþykt var hér í deildinni var felt í efri deild, eins og fleiri nytsöm mál. Það mun flestum óskiljanlegt, hvers vegna hin virðulega Ed. feldi þetta frv. án þess að athuga það nokkurn skapaðan hlut, og það er dálítið undarlegt, að menn skuli óska þess, að prentsmiðjueigendur hér skuli vera skattskyldir til bókasafnanna í Khöfn, án þess að nokkuð komi í móti. Eins og nú er, verða prentsmiðjur vorar að láta konunglega bókasafninu og háskólabókasafninu í té 3 eintök samtals af hverri bók, sem út kemur, endurgjaldslaust. Eins og frv. var samþykt hér, þá átti ekkert eintak að senda áðurnefndum söfnum, nema eitthvað kæmi í staðinn, og sú varð niðurstaðan hér, að ætla þjóðbókasafninu 4 eintök alls af öllu, sem út væri gefið hér, til þess að það gæti haft 2 til skifta. Eg skal geta þess, að sumir vildu fara miklu lengra. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) áleit enga ástæðu til þess héðan af, að neitt af bókum væri látið ókeypis til Khafnar, nema það, sem félög, sem væru styrkt af opinberu fé, gæfu út. Þótt einkennilegt sé, eru ýmsir menn hér á landi svo gerðir, að þeir mega aldrei heyra neitt nefnt á nafn í þá átt, að draga nokkuð af Dönum, sem þeir hafa af oss haft og eiga þó ekki, án þess að vera að tala um títuprjónastingi og að það sé gert af óvild og köldum hug til Dana. En hvers vegna skilst mönnum ekki, að hér er einungis verið að fara fram á jafnrétti? Frá minni hendi merkir þetta mál ekkert annað. Eg hefi sjálfur lifað margar mínar indælustu stundir á bókasöfnunum í Khöfn og þær endurminningar eru mér altaf kærar. Eg vil og enganveginn útiloka það, að þessi söfn geti á sanngjarnan máta eignast bókmentir vorar, en það tekur engu tali, að ekkert eigi að koma í staðinn. Mér finst að hér eigi að sjálfsögðu að vera fult jafnrétti á. Úr því að Danir hafa ekki lögskyldu til þess að láta okkur fá allar bækur, sem þar eru út gefnar, þá eigum við heldur ekki að hafa það.

Hæstv. ráðherra (Kr. J.) hefir sýnt mér bréf, þar sem svo er á að sjá, að forleggjarafélagið í Danmörku muni gefa okkur kost á að fá ókeypis þær danskar bækur, sem útgefnar eru árlega og við kunnum að óska. Mér skildist, að þetta væri fyrir milligöngu kenslumálastjórnarinnar og tilmæli þjóðbókasafnsins hér. Þetta er nú allrar virðingar vert af forleggjurunum, en eg álít, að ekki hafi verið litið nóg í kringum sig, þegar farið var fram á þetta. Slík málaleitun átti ekki að koma fyr en alþingi væri búið að nema burtu lagaskylduna. Hæstv. ráðherra (Kr. J.) spurði mig, hvort eg vildi nú ekki, fyrst svona væri komið, falla frá þingsályktunartillögunni. Það vil eg ekki gera. Eg vil að fult jafnrétti komist á, þannig að móti því, sem við fáum góðmótlega, látum við annað koma góðmótlega, en ekki með lagaskyldu. Hæstv. ráðherra hlýtur líka að sjá, að þá verða býtin bezt, þegar annar lætur ekki tilneyddur og hinn gefur ekki af náð. Þessi skylda hefir nú hvílt svo lengi á okkur, að það er mál til komið að nema hana burtu.

Þetta er eitt af þeim leiðinlegu smáákvæðum í löggjöf vorri, sem horfa svo við, að við að þessu leyti verðum að virðast undirlægjur Dana. Þessu á að kippa i lag, og eg skil ekki, að nokkur maður sé sá — eg hafði nærri sagt það óhræsi — að vilja það ekki.