29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

153. mál, prentsmiðjur

Jón Magnússon:

Eg skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál. Að eins vildi eg gefa upplýsingar, sem eru víst ekki vel kunnar, um, hvernig mál þetta horfir við, að því er snertir þetta tilboð frá Appel ráðherra.

Árið 1907 samþykti alþingi svo hljóðandi þingsályktunartillögu, sem eg vil leyfa mér að lesa upp. Hún hljóðar svo:

»Alþingi skorar á stjórnina að leita samninga við stjórn Dana um, að hún hlutist til um, að landsbókasafninu verði látið ókeypis í té 1 eintak af helztu bókum og tímaritum, sem prentaðar eru árlega í Danmörku, til uppbótar fyrir þau 3 eintök af öllum íslenzkum bókum og blöðum, sem íslenzkar prentsmiðjur eru skyldar til að láta af hendi handa hinni konunglegu bókhlöðu og háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn«.

Þannig hefir alþingi 1907 falið stjórninni að leita samninga við dönsku stjórnina um skifti á bókum og hefir stjórnin gert þetta. En á nú alþingi að ganga frá þessu? Ef einhver kynni að segja, að ósk alþingis hafi ekki verið uppfylt, skal eg geta þess, að merkur maður í Kaupmannahöfn hefir skýrt frá því, að safnið eigi að fá allar danskar bækur. Við erum bundnir við samþyktina frá 1907. Það væru því hrein og bein samningsrof, að hlaupa frá henni. Slíkt væri kallað svik manna á milli, og hygg eg ekki, að háttv. deild vilji gera sig seka í slíku.