26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

75. mál, stjórnarskrármálið

Sigurður Stefánsson:

Eg skal ekki lengja umræðurnar mikið, en vildi að eins gera stutta athugasemd og skal eg fara fljótt yfir ræður þær er haldnar hafa verið, og víkja að eins að því er máli skiftir.

Háttvirtur 5. konungkjörinn þingmaður og háttvirtur þingmaður Skagfirðinga hafa komið fram með breytingartillögur á þingskjali 717. Það er ekki til neins að deila um, hvort betra sé að hafa einn ráðherra eða þrjá og má margt segja með og móti því, en líklegra verð eg að telja að stjórnin fari betur úr hendi fleiri manna.

Þar sem háttvirtur 5. konungkjörinn þingmaður bendir á óheppilega stjórn upp á síðkastið, sem eg get að mörgu verið samdóma, þó ekki sé að öll leyti, þá verð eg að benda á að oft getur farið betur, er fleiri eru.

(L. H. Bjarnason: Margfalda með þremur.)

Ef að heiðursmaður sá, sem stjórnina hafði með höndum, hefði haft með sér tvo menn jafngreinda, en með þeim kostum, er hann vantaði, þá hefði eflaust orðið minna upp á stjórnina að klaga, en raun hefir á orðið.

Eg geng út frá því, að þrír ráðherrar hafi meiri og fjölbreyttari þekkingu en einn, og einn bætir upp það sem öðrum er áfátt.

Háttvirtur 5. konungkjörinn þingmaður tók það fram, og var það að nokkru leyti rétt, að móti einræði stjórnar er að nokkru hamlað með ákvæði 13. greinar, þar sem meiri hluti hvorrar deildar sem er getur krafist aukaþings, en eg álít að það geti orðið æði umsvifamikið að koma slíkum kröfum fram og ærinn er kostnaður við aukaþingshald. Og þó meiri hluti þings sé með þessu, þá er ekki víst að þjóðin sé því fylgjandi og óvíst að þetta sé heillavænleg aðferð.

Hann gerir enn fremur ráð fyrir því, að þrír ráðherrar mundu vilja auka starfskrafta stjórnarráðsins. Mér finst að einmitt þessi fjölgun sé svo mikil aukning starfskrafta. að hún ætti að nægja í bráð. En leiði fjölgunin þetta af sér, þá má ekki síður búast við kröfunni af hendi eins ráðherra í þessa átt og það mjög bráðlega. Eg tók það fram áður, að meiri þekkingar væri að vænta hjá þriggja manna stjórn og yrðu því málin betur undirbúin undir þing. Ennfremur þyrfti þá síður að setja stórar og dýrar milliþinganefndir, og léttist þá af hinum mikla kostnaði, er leiðir af löngum milliþinganefndastörfum.

Það sem hann lagði mest áherzlu á var kostnaðaraukinn, og væri ekkert út á reikning hans að setja, þá skal eg játa, að þar væri gripið á kýli, sem mér er viðkvæmt. En reikningur hans er ekki réttur, hann taldi kostnaðinn 17 þús. krónur og fékk þann kostnað út með því, að ætla hverjum ráðherra 10 þús. kr., 8 þús. kr. laun og 2 þús. kr. húsaleigustyrk. Þetta get eg ekki fallist á. Það dettur engum í hug að ætla þessum 2 nýju ráðherrum húsaleigustyrk, því að þeir þurfa ekki að halda uppi risnu, eða taka á móti útlendingum fyrir þjóðarinnar hönd. Það ætti forsætisráðherrann að gera einn. Enda tíðkast það ekki utanlands að aðrir ráðherrar hafi húsaleigustyrk en þeir, sem halda uppi risnu fyrir þjóð sina. Hinir búa eins og hverir aðrir embættismenn og hafa engan húsaleigustyrk, og eg tel víst, að það yrði svo hér, að þinginu dytti ekki í hug að láta aðra hafa húsaleigustyrk en forsætisráðherrann. Auk þess teldi eg það fullsæmilegt að þessir 2 nýju ráðherrar hefðu 6 þús. kr. laun eins og landritari hefir nú. En þó að þeir hefðu 7 þús. kr. hver, þá yrðu aukin útgjöld ekki meir en 8 þús. krónur, þegar búið væri að draga laun landritara frá, því að þau sparast alveg. Eg get gengið inn á það að núverandi landritari eigi að hafa biðlaun, en sá kostnaður er að eins í bili. Eg gerði ráð fyrir því, að kostnaðaraukinn yrði 8 þús. kr., eða í hæsta lagi 10 þúsund. Annars skal eg játa það, að þótt eg sé sparnaðarmaður, þá horfi eg ekki í nokkurn útgjaldauka, þegar um er að ræða atriði, sem eg álít miklu máli skifta til þess að hafa góða og ötula landstjórn. Og eg lít svo á, að það sé meiri trygging fyrir góðri landstjórn og góðri samvinnu milli stjórnar og þings, ef ráðherrar eru fleiri en einn.

Um breytingartillögu hv. 2 þm. Skagf., þingskj 745, skal eg ekki vera langorður, því að eg felli mig betur við þá skipun efri deildar heldur en þá, sem frumv. gerir ráð fyrir.

Hv. flutningsmaður gerði góða grein fyrir því og eg skal ekki lengja tímann með því að bæta neinu þar við. Hitt er annað mál, hvernig neðri deild tekur þessari breytingu og gæti svo farið, að þetta leiddi til enn meiri byltinga; það skal eg ekki segja um, en hitt veit eg, að þótt efri deild breytti engu í þessu atriði, þá mundu samt verða gerðar breytingar á því í neðri deild, því að þar eru margir óánægðir með skipun Ed., eins og hún er í frumvarpinu. Það eina, sem eg hefi á móti þessari breytingartillögu er það, að þar er brotin sú meginregla, sem eg hefði helzt kosið að gilti um kosningu til efri deildar, nefnil. að allir þingm. deildarinnar væru kosnir á sama hátt. En hins vegar tel eg það kosningarhringl, sem verður eftir frumvarpinu, enn þá verra, þar sem kosningar eiga alt af að fara fram 3. hvert ár. En um það atriði tala eg í eigin nafni, en ekki fyrir hönd nefndarinnar.

Það kom til tals í nefndinni að gera breytingartillögu að þessu leyti, en eftir atvikum félst nefndin á að láta þessi ákvæði standa óbreytt.

Þá eru breytingartillögur á þingskjali 744 frá sömu þingmönnum. En þar verð eg fyrir mitt leyti og eg held fyrir hönd allra nefndarmanna að lýsa því yfir, að við getum ekki fallist á að breyta 61 gr. núgildandi stjórnarskrár. Hér er farið fram á alveg nýja aðferð, að leggja stjórnarskrárbreytingar undir alþjóðar atkvæði, og að því skilyrði viðbættu að stjórnin verði að vera stjórnarskrárbreytingunni meðmælt, í staðinn fyrir að samkv. 61 gr. skal rjúfa alþingi og stofna til nýrra kosninga, hvort sem stjórnin er meðmælt breytingunni eða ekki. Eftir tillögu hv. þingmanna finst mér stjórninni vera gefið alt of mikið vald í hendur. Það er alveg lagt á hennar vald, hvort nokkur stjórnarskrárbreyting verður gerð eða ekki, hversu eindreginn meiri hluti sem er breytingunni fylgjandi á þingi. Það tel eg óheppilegt. Það er hægt að segja að þá megi steypa stjórninni. En það er umsvifamikið, og gæti leitt til stjórnarskifta, sem væru alveg ástæðulaus að öðru leyti. Það hefir verið sagt um 61. gr. stjórnarskr., að hún væri gimsteinn í stjórnarskrá okkar, einmitt af því, að samkvæmt henni getur stjórnarskrárbreyting gengið fram, þó að stjórnin sé henni mótfallin. Ef þessu er breytt eins og till. hv. þingm. gerði ráð fyrir, þá er þingræði skert og þó að þingið geti náð rétti sínum með því að steypa stjórninni, þá er það ekki nóg. Eg vil ekki að stjórninni sé lagt þetta vald í hendur. Og eg hygg að meiri hluti nefndarinnar muni halda fast við það, að láta stjórnarskrárbreytingu als ekki vera háða referendo, heldur halda þeirri skipun, sem nú er. Hv. þingm. Akureyrar tók fram að ýmisleg önnur atriði gætu blandast inn í aukaþingskosningarnar, óviðkomandi stjórnarskrárbreytingunni. Það er að vísu rétt, en kosningin snýst þó aðallega um stjórnarskrárbreytinguna og eg hygg að stjórnarskrárbreytingin sjálf verði betur rædd og athuguð með þeirri skipun, sem nú er. Auk þess óttast eg, að referendum um stjórnarskrárbreytingu gæti oft leitt til þess, að málið kæmist á ringulreið, því, að einn festi augun á þessum agnúa, annar á hinum o. s. frv, og miðuðu atkvæði sín við það, svo að málið félli niður. Eg vil halda 61. gr. stskr., en ef menn vilja reyna referendum, þá að sjá hvernig það gefst á öðrum málum.

Þá skal eg nefna breytingartill. hv. þm. Akureyrar og Strandamanna, þingskjali 721 um hjúin, sem sumum hv. þingm. hefir orðið tíðrætt um. Eg gæti fyrir mitt leyti vel gengið inn á fyrri lið tillögunnar, en eg skal játa, að eg hefi enga vissu um vilja meðnefndarmanna um það. Um hina tillöguna skal eg ekkert tala í þetta sinn, því að eg er ekki búinn að átta mig vel á málskoti til þjóðarinnar í almennum málum. En sjálfsagt gæti verið margt við það að athuga.

Þá skal eg minnast á ummæli hv. þm. Vesturskaftfellinga í garð nefndarinnar; þau voru í harðara lagi. Hann sagði að nefndin vildi ræna hjúin rétti sínum, en það er ekki rétt. Nefndin vill að eins ekki veita þeim rétt, sem þau hafa ekki nú. Og það er ekki af neinni lítilsvirðingu við þessa stétt, heldur að eins að nefndin vill gæta allrar varúðar og ekki gera stórfeldar breytingar, sem gætu orðið til þess að