29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

153. mál, prentsmiðjur

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Eg lýsti yfir áliti mínu á þessu máli þegar prentsmiðjulögin voru hér á ferðinni. Þá gat eg þess, að mér virtist það hagfelt fyrirkomulag, að eitt eintak af öllu því, sem væri prentað á Íslandi, væri geymt á öruggum stað, hvað sem upp á kynni að koma og því áleit eg að það væri hentugt, að prentsmiðjur hér væru skyldar til þess að senda bókasöfnum í Kaupmannahöfn eintök af því, sem prentað er hér. Og nú er svo komið, að við eigum kost á að velja úr dönskum bókum, sem út koma handa landsbókasafninu og það væri fjarstæða að kasta þeim hlunnindum frá sér. En hér er ekki verið að hugsa um það, hvað sé hagfeldast eða að þingið standi við orð sín; nei. Hér er um stórpólitík að ræða. Það sást á ræðu háttv. flutningsm. (J. Þ.), að hann dró ekki dulur á það, að hann væri hér með að losa okkur úr innlimuninni. En eg lít ekki þeim augum á þetta mál, heldur hvað sé hagfelt fyrir okkur. Þingið og stjórnin á þakkir skildar fyrir gerðir sínar 1907. Og það hefir ekki áhrif á okkur, þótt háttv. flutningsm. kalli okkur óhræsi fyrir það, sem gert var þá. Þetta orð: óhræsi, rifjar upp fyrir mér sögu, sem mér dettur stundum í hug, þegar háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) er að koma með þessar stórpólitísku títuprjónatillögur sínar. Eg hefi þekt mann, sem nú er dáinn fyrir nokkrum árum. Hann hét Jón, eins og svo margir fleiri, og var kallaður Jón óhræsi. Ekki hafði hann fengið nafnið af því hann væri illmenni, því það var hann ekki; en hann var mesta ómenni, alls ólíkur okkur nöfnunum, háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og mér. Hann var afar gefinn fyrir að lifa í fornri tíð, en hann vildi lítið starfa og varð jafnan lítið úr framkvæmdum hjá honum. Hann hafði hugsað sér Arngrím í Bólmi, sem fyrirmynd sína og hann hélt sig eiga eftir, að eiga 12 sonu eins og Arngrímur, þá Angantý og bræður hans. Þegar karlinn var orðinn 70 ára, þá sá eg hann einu sinni ölvaðan, því honum þótti gott í staupinu, og þá sagðist hann vera viss um, að hann ætti eftir að eiga 12 sonu, eins og Arngrímur; og þegar karlinn hafði sagt þetta, þá stóð hann vanalega upp, teygði úr sér eins og hann gat, krefti hnefana, gretti sig og sagði: »Nú drep eg einhvern«. En það var aldrei neinn maður hræddur við hann, þótt hann segði þetta, því allir vissu, að hann gat engum mein gert.

Þessi atburður hefir aldrei staðið eins greinilega fyrir hugskotsaugum mínum og í dag meðan háttv. flutningsmaður (J. Þ.) talaði.