29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

153. mál, prentsmiðjur

Flutningsm. (Jón Þorkelsson):

Það stafar af misskilningi, að þingið vilji svíkja samning sinn, ef tillagan verði samþykt. Og þeir, sem segja það, vita að það er ósatt. Það er ætlast til, að landsbókasafnið fái 2 eintök framyfir til skifta. Alt annað eru vísvitandi ósannindi.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) talaði um, að eg væri ófeiminn að koma með svona tillögu. Eg tel mér heiður að því, að það skuli vera farinn af mér heimóttarskapurinn og búinn að hleypa nokkurn veginn heimdraganum. En eg vil skjóta því til þeirra, sem þekkja framkomu okkar beggja, hvor okkar sé ófeimnari í því að eyða hinum dýrmæta tíma þingsins með því að þvogla og þvæla á móti beztu málunum, sem hér koma fram. Móti nærri hverri einustu tillögu, sem frá mér hefir komið á þessu þingi, sem nær allar hafa lotið að því, að losa um einhver innlimunaratriði, hefir hann verið þindarlaus að þrefa og þybbast, til einskis gagns, en óþurftar einnar. Og þar með situr það illa á öðrum eins hundavaðsmanni, að brigsla öðrum um það, að þeir kynni sér ekki mál til hlítar, — af jafnauðvirðilegu tilefni og hinni lúalegu þingsályktun frá 1907, sem eg hafði ekki tekið eftir fyrri en við umræðurnar, og aldrei hefði átt að vera til. (Forseti: Eg skal geta þess, að það hafa fallið í þessu máli of hörð orð frá báðum hliðum, og vil eg biðja þingmenn að gæta betur hófs í umr.). Eg skal lofa háttv. forseta því, að fara líknsamlegum orðum um þá menn, sem nú eru andaðir; einungis vil eg láta háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) vita það, að eg þarf ekki að spyrja hann um lög í þessu efni, og upptök þessarar löggjafar eru frá einveldistímunum, frá 1821.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, að máli þessu hefði verið hreyft á þingi 1886, en þá hefði ekki þótt fært að breyta lögskyldunni til dönsku safnanna, því að ráðherrann, sem þá var, var danskur maður, og mundi hafa sett sig upp á móti því. Nú er ekkert því líkt til fyrirstöðu, enda viljum vér bjóða að láta bækurnar af hendi frjálslega í skiftum, en viljum hins vegar enga lögkúgun hafa í þessu efni. Svo virðist mér að mál þetta megi nú liggja ljóst fyrir, og vonast eftir, að háttv. deildarmenn greiði því sem flestir atkvæði sitt.