26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

75. mál, stjórnarskrármálið

Steingrímur Jónsson:

Það er að eins eitt atriði, sem eg ætla að minnast á við þessa umræðu málsins, breytingartill. á þingskjali 753. Mér kom á óvart að þessi tillaga skyldi koma fram frá hv. þingm. Akureyrar, því mér hafði skilist svo, að það væri samkomulag í nefndinni að takmarka kosningarréttinn frá því, sem gert er í frumvarpi neðri deildar og takmarka hann einmitt á þann hátt, sem nefndin leggur til. Það er alls ekki af neinum óvildarhug til hjúa, heldur af því að nefndin áleit ekki gerlegt að fjölga kjósendum svo mikið alt í einu og þá ætti bezt við, að það væru hjúin sem biðu. Svona skildi eg meðnefndarmenn mína og því þykir mér undarlegt, að þessi tillaga skyldi koma fram frá einum nefndarmanna og að jafnvel hv. framsögumaður mælti ekki á móti henni. Eg vil undirstryka það, að ef þessi br.till. verður samþykt, þá er hjúum þar með veittur kosningarréttur. Því ef það er ástæða til að hafa nokkuð stjórnarskrárákvæði, sem ekki verði breytt með einföldum lögum, þá eru það einmitt ákvæðin um kosningarréttinn. Slík ákvæði verður stjórnarskráin að halda fast við sem sína eign.