02.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

31. mál, rottueitrun

Flutningsm. (Björn Þorláksson):

Eg vil geta þess strax, að inn í frumv. þetta hefir slæðst ein prentvilla, sem þó ekki getur valdið misskilningi, nfl.: búðum, fyrir: báðum.

Eg ætla þá að leyfa mér að skýra frá þeim ástæðum, sem eg hafði til að bera þetta frumvarp fram.

Það er öllum kunnugt, hvílíkum skemdum rottur geta valdið, svo að jafnvel stórfé getur tapast við. Rottan ræðst bæði á matvæli og íverufatnað, veldur skemdum á ýmsum búshlutum og gerir mikið tjón bæði í timbur- og torfhúsum. Einkanlega er það þó í torfhúsunum. Rottan rífur þökin smátt og smátt í sundur og veldur gusti og súg. Ef veggirnir eru úr torfi og grjóti eða mold og grjóti, grefur hún göng um þá þvera og endilanga, svo að þeir hrynja smátt og smátt.

Þá er ekki sú ástæðan sízt, að rottan kann að flytja með sér skæðar drepsóttir, og hafa mikil brögð verið að því í öðrum löndum. Hvort það hafi komið fyrir á Íslandi, að rottur hafi flutt með sér sóttnæmi, vita menn ekki, en vel getur það komið fyrir. Líka er þess að gæta, að hún breiðist ávalt meir og meir út. Hún er nú komin víða um sveitir, og í kaupstöðunum eykst hún sífelt. Hún mun vera mikið útbreidd bæði í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði, og frá kaupstöðunum breiðist hún út til sveitanna í kring. Viðkoman er líka meiri en á flestum öðrum skepnum. Mér er sagt, að út af einum rottuhjónum geti, ef alt lifir, komið 800 á ári. Hér er því augsýnilegur voði á ferðum, ef engar ráðstafanir verða gerðar.

Eg býst við, að mörgum muni þykja lög þessi lítilfjörleg, en hér er þó um sanna fjárhagshlið að ræða. Þetta er raunar nýmæli hér á Íslandi, en í öðrum löndum er það ekkert óvanalegt, að samtök séu gerð til að útrýma rottum. Og eg vil einnig geta þess, að ríkisþingið danska hefir fyrir skömmu, eða 16. apr. f. á., samþykt lög, sem eru svipuð þessum lögum, sem hér eru borin fram. Sumir kunna nú ef til vill að vera hræddir við að meðalið, sem aðallega er ætlað til að útrýma rottunum, nfl. eitur, geti verið hættulegt mönnum, en svo er ekki. Rottueitrið, sem er nýfundið upp og kallað er »Ratin«, er algerlega skaðlaust mönnum og dýrum.

Það er aðallega tvent, er frv. kveður á um. Annað ákvæðið er það, að rottum skuli útrýmt með eitri. Hitt ákvæðið er almenn samtök hjá mönnum til þess að fult gagn verði að eiturútburðinum.

Með því að þetta er mál, er vel þarf að athuga, leyfi eg mér að stinga upp á, að kosin verði 3 manna nefnd í það.