09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

31. mál, rottueitrun

Framsögum. (Björn Þorláksson):

Eg skal með fáeinum orðum skýra fyrir hinni háttv. þingdeild hinar einstöku greinar frumvarpsins.

1. gr. frv. hnígur að því í fyrsta lagi að veita bæjar- og sveitarstjórnum heimild til að verja nægu fé til að eyða rottum, og í 2. lagi, að eitrið sé valið eftir því, sem landsstjórnin með ráði dýralæknis telur heppilegast. Það eitur, sem nú er brúkað, nefnist »Ratin«, en það eitur er ekki tiltekið í greininni, til þess að hægt sé að nota annað eitur, ef eitthvað finst betra, enda óþarft að tiltaka það, þar sem það á að verða gert eftir því sem landsstjórnin ákveður í samráði við dýralækni.

Í annari grein ræðir um útburð á eitri. Er fyrst ákveðið, að eitrið skuli útborið tvisvar til þrisvar á ári, því að reynslan hefir sýnt, að þar sem »Ratin« hefir verið brúkað, hefir ekki veitt af að gera það svo oft. Í öðru lagi er ráð fyrir gert, að eitrið verði borið út, þegar harðnar, það þykir bezt henta; meðan vel viðrar, er rottan úti um haga, en þegar frost og snjóar koma, leitar hún mest til bæja og húsa. Í 3. lagi er gert ráð fyrir, að borið sé út í öll hús í senn, hvaða hús sem eru, í sömu sveit eða sama kaupstað. Ella gætu rotturnar falist í þeim húsum, sem ekki væri borið út í, og kæmi þá eitrið að litlum notum, vegna þess hve þeim fjölgar fljótt.

Í 3. gr. frumv. er ákveðið, að þar sem tvö eða fleiri sveitafélög liggja saman, svo að ekki skilja fjöll eða vötn, skuli útburður fram fara samtímis. Það er augljóst, að ella kæmi útburðurinn að engu haldi.

Í 4. gr. er tekið fram, að stjórnarvöld skuli hafa eftirlit með, hversu lögunum er sint, og bæjar- og sveitarstjórnir því skyldaðar til að senda skýrslur árlega um árangurinn af útburðinum.

Þá kemur 5. gr., sem nefndin leggur til, að tekin verði upp í frumv., og er hún um það, að landsstjórnin setji reglur um það, hversu fara skuli með eitrið, hvaða eitur, sem notað verður.

Breyt.till. nefndarinnar standa í nefndarál. á þgskj. 85. Það eru mest skýringar og orðabreytingar.

Í síðustu gr. frv. er tekið fram, að lögin skuli endurskoða eftir 5 ár, og er það tekið upp eftir dönskum lögum um sama efni.

Í sambandi við þetta frumv. hafa einstöku þingmenn talað um það við mig utan þings, hvort ekki væri heppilegt að setja inn í frumv. ákvæði um verðlaun fyrir eyðingu rotta. En eg álít, að það geti ekki samrýmst þessu frumv., þar sem það er einskorðað við eyðingu rotta með eitri. Ef »Ratin« er notað, bráðdrepast rotturnar ekki af því, heldur verða þær veikar, fara út úr húsunum og drepast úti á víðavangi. Með þessum hætti er því ekki að óttast pest í híbýlum manna af eyðingu rottanna. Þess vegna samrýmist það ekki að veita verðlaun fyrir dráp rotta úti við stefnu frumv.

Eg þarf ekki að fara fleiri orðum um frumv. Eg vona, að það verði samþykt með brtill. nefndarinnar.