04.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

32. mál, stækkun verslunarlóðarinnar í Gerðum

Flutnm. (Björn Kristjánsson):

Á þingmálafundi í Keflavík kom fram krafa um, að stækkuð yrði verzlunarlóðin í Gerðum. Gerðar eru landlaust, lítið kot, og hin ákveðna verzlunarlóð mjög þröng. Þeir sem byggja á henni verða því að sæta hörðum kostum, lóðargjöld þau, sem þeir gjalda, eru mjög há, margfalt hærri en í Reykjavík. Í veðdeildarlögunum er sem sé svo ákveðið, að eigi megi lána út á húseign, nema hún standi á verzlunarlóð; þetta er raunar óheppilegt ákvæði, því að í sjálfu sér getur veð í húseign í góðu sjóþorpi verið fult svo gott, eða jafnvel betra, en á kaupstaðarlóð. En því miður er örðugt viðfangs að breyta einstökum ákvæðum veðdeildarlaganna, og er því nauðsynlegt að stækka verzlunarlóðirnar, einkum þar sem lóðargjöldin eru há á kaupstaðarlóðunum.

Svæðið, sem frumv. þetta fer fram á, að bætt verði við verzlunarlóðina, er að vísu nokkuð stórt, en vonandi verður það ekki framgangi málsins til fyrirstöðu, enda er einmitt á þessu svæði þrautalendingin í Vörum. — Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frumv., það er ekki nema tillátssemi við þá menn, sem hlut eiga að máli, að það nái fram að ganga. Mér virðist óþarft, að nefnd sé skipuð í svo einfalt mál, en vona að því verði vísað til 2. umr.